Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ósammála um friðun Eyjafjarðar fyrir sjókvíaeldi

22.05.2020 - 19:05
default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Bæjarstjórinn í Fjallabyggð segir samþykkt bæjarstjórnar Akureyrarbæjar um að friða beri Eyjafjörð fyrir sjókvíaeldi ganga gegn áformum um fiskeldi í Ólafsfirði. Formaður Landssambands veiðifélaga fagnar ályktun Akureyringa.  

Í samþykkt bæjarstjórnar Akureyrarbæjar er lagt til við sjávarútvegsráðherra að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi. Þannig verði meiri hagsmunum ekki fórnað fyrir minni.

Lífríki og atvinnuuppbyggingu best borgið með friðun

Tillagan kom frá Gunnari Gíslasyni, fulltrúa í minnihluta bæjarstjórnar, og meirihlutinn klofnaði við afgreiðslu hennar. Tveir fulltrúar Samfylkingar í meirihlutanum styðja að óskað verði eftir því að Eyjafjörður verði friðaður gegn sjókvíaeldi, á meðan hinir fjórir fulltrúar meirihlutans vilja hafa samráð við önnur sveitarfélög um það hvort leyfa eigi eldi í firðinum eða ekki. „Það var bara mín einlæga sannfæring bæði er varðar lífríki fjarðarins og framtíðar atvinnuuppbyggingu hér í firðinum að þeim væri best borgið með því að friða fjörðinn,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar. 

Margt sem beri að taka fram fyrir sjókvíaeldi

Margt sem þegar hafi verið byggt upp beri að taka fram yfir sjókvíaeldi. Mikil ferðaþjónusta sé í firðinum og margs konar önnur starfsemi í bígerð. „Auk þess sem hann er ekki bara nýttur til atvinnu, heldur líka bara lífsgæða,“ segir hún.

Telur mjög bratt að óska eftir friðun á öllum Eyjafirði

Í Fjallabyggð hafa verið áform um sjókvíaeldi og vinnslustöð fyrir lax í Ólafsfirði sem skapað gæti allt að 70 störf. Bókun Akureyringa fellur í grýttan jarðveg þar. „Hún í grunninn samræmist ekki þeim áformum sem fram hafa verið sett,“ segir Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð. „Ég tel nú að þetta sé mjög bratt hjá Akureyringum að óska eftir því við ráðherra að hann friði allan Eyjafjörð án þess að menn hafi rætt það saman.“

Landssamband veiðifélaga fagnar tillögunni

Áform um fiskeldi í Eyjafirði í áranna rás hafa verið umdeild. Smábátasjómenn hafa talað gegn sjókvíum og fyrirtæki í ferðaþjónustu mótmælt slíkum áformum. Þá hafa umhverfissjónarmið verið þar ofarlega á baugi, meðal annars ótti um áhrif laxeldis á sjóbleikjustofna. „Okkur þykir það bara einstaklega ánægjulegt að sveitarfélag eins og Akureyri taki undir þessa náttúruverndarbaráttu sem menn hafa verið að heyja gegn fiskeldinu,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. „Og það má benda á að 40 prósent af sjóbleikjustofni á heimkynni í Eyjafirði.“