Mílanóliðin fá leyfi til að rífa San Siro

Mynd með færslu
 Mynd:

Mílanóliðin fá leyfi til að rífa San Siro

22.05.2020 - 12:36
Ítölsku knattspyrnufélögin AC Milan og Inter Milan hafa fengið leyfir frá þarlendum yfirvöldum að rífa hinn sögufræga leikvang San Siro.

Mílanóliðin tvö deila vellinum sem var byggður árið 1926. Hann hefur þó verður endurbættur og stækkaður marg oft síðan þá og aðeins lítill hluti upphaflega mannvirkisins er þar enn. Leikvangurinn er meðal þeirra stærstu í Evrópu en hann tekur 76 þúsund manns í sæti. Þar hafa margir eftirminnilegir leikir farið fram, til að mynda lokakeppni EM árið 1980 og sex leikir á heimsmeistaramótinu 1990.

Liðin tvö ætla að reisa í sameiningu nýjan og glæsilegan leikvang á grunni San Siro sem mun taka 60 þúsund áhorfendur. Áætlaður kostnaður við verkið er um 650 milljónir evra og áætlað er að það taki um þrjú ár að reisa hann. Líkur eru á að COVID-19 faraldurinn muni setja strik í reikninginn en hann hefur kostað íþróttafélög um allan heim gífurlegar fjárhæðir.