Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Lína Langsokkur skrifar námskrár skóla í dag“

Mynd:  / 

„Lína Langsokkur skrifar námskrár skóla í dag“

22.05.2020 - 16:21

Höfundar

Ein ástsælasta barnabókapersóna síðustu aldar, já og kannski þessarar líka, hún Sigurlína Rúllugardína Nýlendína Krúsimunda Efraímsdóttir Langsokkur, fagnar um þessar mundir 75 ára afmæli. Fyrsta bók sænska rithöfundarins Astridar Lindgren um þessa sterku og óútreiknanlegu stelpu á Sjónarhóli kom út árið 1945. Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og bókmenntafræðingur, segir að samfélagsleg áhrif Línu séu meiri en við getum ímyndað okkur. Segja megi að hún skrifi námskrár skóla í dag. 

„Ég held að LÍna hafi haft alveg gríðarleg áhrif, ekki bara á börn heldur líka á foreldra og uppalendur og skólakerfið og samfélagið, bókaútgefendur. Ég held að Línuáhrifin séu miklu, miklu víðtækari en maður ímyndar sér. Í fljótu bragði eru Línuáhrifin fyrst og fremst þau að hún ræðst gegn ríkjandi staðalmyndum. hún er sterk stelpa, djörf og býr ein, brýtur staðalmyndir kynjanna um að geta bjargað sér, fá að vera úti í ævintýrunum sem var ekkert algengt á þessum tíma, á fimmta áratugnum í bókum fyrir unga lesendur. Þá áttu strákar útisvæðið og stelpurnar voru inniverurnar að æfa sig að vera fullorðnar konur. Svo brýtur hún líka staðalmyndina um barn og það er ekki síður mikilvægt því að hún er uppátækjasöm, brýtur reglur hinna fullorðnu en það er aldrei illa meint, hún veit alltaf sínu viti og í raun betur en fullorðna fólkið og það sem hún stríðir gegn er íhaldsemi og þröngir rammar á allan hátt. Hún storkar ríkjandi samfélagsgerð getum við sagt og hún er þetta sjálfstæða barn með munninn fyrir neðan nefið, á síðasta orðið, leyfir sér að standa uppi í hárinu á fullorðna fólkinu og leyfir sér að boða samfélag sem er frjálslyndara og víðsínna en það sem umlykur höfundinn og lesendur þegar bókin kemur út. Það á erindi alltaf,“ segir Brynhildur Þórarinsdótir. 

Enn sé Lína að blása börnum byr í brjóst, ekki síst stúlkum. Brynhildur bendir á að á þessu ári nota samtökin Barnaheill hana sem fyrirmynd stúlkna á flótta. 

Lína sigrar Adolf

Einu sinni var Karen dóttir Astridar Lindgren lasin og bað mömmu sína að segja sér sögu um Línu langsokk. Mamma hennar byrjaði að spinna, seinna þegar Lindgren var sjálf veik skrifaði hún sögurnar um Línu niður. Afmælisdagur Línu er í raun afmælisdagur Karenar, 21. maí. En hvað gekk Lindgren til? Var Lína bara persóna sem varð til fyrir tilviljun eða var Lindgren meðvitað að reyna að ögra og breyta viðteknum hugmyndum? „Við verðum að skoða inn í hvaða umhverfi hún er skrifuð,“ segir Brynhildur.  „Hún er skrifuð á stríðsárunum, kemur út árið 1945 eftir að hafa verið hafnað einu sinni af útgefanda. Hún kemur út á erfiðum tímum og það eru þarna þættir sem má algerlega túlka sem ádeilu á ríkjandi ástand, ádeilu á þetta karlaveldi sem er að leiða heiminn inn í stríð, Lína til dæmis sigrar Adolf sterka, það er auðvelt að lesa það inn í átök seinni heimstyrjaldarinnar. Hún er líka að skrifa inn í hugmyndaheim, hún er að búa til karakter sem sýnir hennar viðhorf til uppeldismála, bæði inn á heimilum og hvernig samfélagið kemur fram við börn.“

Lesa ótal kenningar úr skrifum Lindgren

Brynhildur segir að Astrid hafi verið ótrúlega vel lesin, það sjáist um leið. Þegar hún sendi handritið á útgefanda talaði hún um Línu sem ofurmenni, tilvísun í Nietzsche. „Menn hafa gert sér leik að því að lesa alls konar heimspeki- og uppeldiskenningar út úr skrifum hennar. Hún er að ala okkur upp, bæði börnin og fullorðna fólkið og við sjáum alveg þessi áhrif með hinn frjálsa anda, hið frjálsa barn. Hvernig það kemur svo alltaf meira og meira í ljós, meira og meira inn í barnabækur.“ 

Fía sól og bræðurnir Jón Oddur og Jón Bjarni

Brynhildur segir að Lindgren ætti að geta verið stolt af áhrifum sínum á næstu kynslóðir barnabókahöfunda. „Við getum talað um höfunda eins og Guðrúnu Helgadóttur sem klárlega hefur lesið Astrid Lindgren, hennar söguhetjur standa svo gjarnan uppi í hárinu á fullorðna fólkinu. Við getum talað um á 21. öldinni, Fíu Sól hennar Kristínar Helgu Gunnarsdóttir, hún er með sterk Línueinkenni.“

Fargmöldunartaflan

Svo er það skólakerfið sem Brynhildur segir að Lína hafi haft mikil áhrif á. „Mér finnst svolítið gaman að því, að 75 ára gömul söguhetja sé í raun að skrifa fyrir okkur námskrárnar í dag með því að færa áherslur skólakerfisins frá því að vera innrammaður, utanbókalærdómur yfir í það að við veltum fyrir okkur afhverju gerum við hlutina og hvað viljum við fá út úr þeim, hvað erum við fær um að gera?“

Andi Línu og Lindgren svífi yfir vötnum í uppeldisstefnum dagsins í dag. 
„Þegar við erum að veita börnum meira frelsi til að segja sínar skoðanir, taka meira mark á þeim. Við erum að kenna þeim að spyrja spurninga frekar heldur en að þylja upp svörin, við erum að færa áhersluna frá því að kennarinn sé að mata og nemendur bara að þiggja í að nemendur séu virkir. Það er það sem Lína gerir í bókunum.“

Línu fannst til dæmis asnalegt að læra fargmöldunartöfluna, hún vildi vita hvernig það nýttist sér. 

Fyrirmynd Grétu Thunberg?

Brynhildur segir mikilvægt að börn viti hvenær þau eigi að sveigja reglurnar eða láta í sér heyra. Lína hafi kennt krökkum að hafa sjálfstraust til þess. „ Af því við erum að tala um áhrifin. Við getum hugleitt hvað er að gerast í alþjóðasamfélaginu út frá Línu. Tökum umhverfismálin. Það er stundum sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn en hvað ef barninu finnst þorpið ekki standa sig, vera of íhaldssamt og ekki koma til móts við framtíðina? Er þá ekki ágætt að barnið geti risið upp. Það er ekki tilviljun að Gretu Thunberg hafi verið líkt við Línu langsokk, það eru ekki bara flétturnar.“

Samsamaði sig frekar með Tomma og Önnu

Karen dóttir Astridar Lindgren er sögð hafa samsamað sig meira með hlýðnum vinum Línu í næsta húsi, þeim Tomma og Önnu, en Línu sjálfri. „Það er nú þannig með góðar ævintýrapersónur að það er alltaf gaman að hafa þær svolítið öðruvísi en mann sjálfan, finnast þær spennandi en líka óttast þær svolítið, maður er auðvitað hræddur við að brjóta reglurnar þegar maður er krakki,“ segir Brynhildur. 

Það er spurning hver upplifun barna er í dag. Brynhildur segir að margt hafi breyst. Við séum komin lengra í að leyfa rödd barna að heyrast og þau hafi að sumu leyti öðlast meira sjálfstæði. „Þó að mörgum finnist þau verndaðri líka en þau eru sjálfstæðari í að tjá sig og finna hvaða reglur má brjóta og hvaða reglur er best að halda í heiðri.“ 

Breyttu yfirlýsingum um negrakóng

Fyrsta bókin um Línu var gefin út á íslensku árið 1948. Brynhildur veit ekki til þess að hún hafi vakið mikla hneykslan hér. Í Svíþjóð fékk hún blendna dóma til að byrja með. Sumum fannst skilaboðin um að börn mættu storka kennurum eða lögreglunni ekkert sérstaklega sniðug. Sums staðar var bókin ritskoðun og Línu breytt í penni stúlku. Á einum stað sagði Lína að pabbi sinn hefði orðið negrakóngur eftir að skipið hans fórst. Því orðalagi hefur verið breytt í nýjustu útgáfum. Brynhildur segir að bækurnar hafi í raun elst svakalega vel. „Vegna þess að hún er svo langt á undan sinni samtíð og svo hafin yfir að vera föst í tíma og rúmi, alveg eins og hún hefur sig svolítið yfir samfélagið sem ofurmenni.“

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Ný kvikmynd um Línu langsokk á næsta ári