Leita lausna við áskorunum sem blasa við eftir Covid

Mynd með færslu
 Mynd: Hack the crisis Iceland

Leita lausna við áskorunum sem blasa við eftir Covid

22.05.2020 - 14:29
Hakkaþonið Hack The Crisis Iceland hefst í dag og stendur yfir um helgina. Þrátt fyrir að nafnið gæti gefið annað til kynna þá er forritunarþekking alls ekki nauðsynleg til þess að geta tekið þátt heldur er nóg að vera lausnamiðaður.

Kristjana Björk Barðdal, framkvæmdarstjóri og meðstofnandi Reboot Hack sem er meðal þeirra sem standa á bak við hakkaþonið, segir algengan misskilning að það sé nauðsynlegt að kunna að „hakka“ eða forrita til þess að geta tekið þátt í hakkaþoni. Þetta sé í rauninni nýsköpunarkeppni þar sem markmiðið er að fá fólk með ólíkan bakgrunn til að koma saman við að finna lausnir við áskorunum. 

„Hakkaþonið er ólíkt öðrum keppnum að því leiti að það er sprettur þar sem þú ert að finna lausnina á ákveðnum tíma,“ segir Kristjana. Keppnin er í gangi frá klukkan 16 í dag, föstudag, og þangað til klukkan 16 á mánudag og er því eins konar maraþon.

Áskoranir hakkaþonsins að þessu sinni eru tengdar nýsköpun í heilbrigðisþjónustu, félags- og velferðarmálum, menntamálum og atvinnumálum. Hack the crisis er alþjóðlegt átak og fjölmörg lönd hafa verið að halda svona keppnir í kjölfar Covid-19 þar sem leitast er við að finna lausnir við áskorunum sem komu upp með heimsfaraldrinum.

„Við erum hins vegar komin lengra og erum að skoða lausnir við hlutum og áskorunum í kjölfarið á Covid,“ bætir Kristjana við. 

Áskoranirnar eru lagðar fram í hverjum flokki og dómnefnd metur svo lausnir við hverri áskorun en 500 þúsund krónur eru í verðlaunafé fyrir hvern flokk. Meðal þess sem verður leitast eftir eru lausnir á biðstofum framtíðarinnar, félagslegri einangrun og fjarkennslu í skólum. Hakkaþonið hér er sérstakt að því leyti að þetta er eitt af fyrstu stafrænu hakkaþonunum sem hafa farið fram í heiminum, keppnin fer fram á netinu og sýnt verður í beinu streymi frá keppninni á Facebook síðu hennar. 

Setningarathöfn fer fram kl 16 í dag en hægt er að skrá sig til keppni alla helgina, hægt er að taka þátt hvar sem er og leitað er að fólki úr fjölbreyttum bakgrunni. „Við erum að vonast til að þessar lausnir haldi svo áfram í þróun og séu atvinnuskapandi,“ segir Kristjana en stofnanir á borð við Reykjavíkurborg, Heilbrigðisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga eru meðal þeirra sem eru að leita að hugmyndum fyrir þau verkefni sem fram undan eru.