Kvennahlaupið með breyttu sniði í ár

22.05.2020 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: ÍSÍ
Ýmsar breytingar verða gerðar á Kvennahlaupinu, sem fer fram 13. júní næstkomandi. Þátttakendur geta nú hlaupið hvaðan sem er, en ekki eingöngu frá skipulögðum hlaupastöðum og í ár verða engir verðlaunapeningar eins og áður hefur tíðkast.

Um 10.000 hafa tekið þátt í hlaupinu undanfarin ár, en í ár eru 30 ár frá fyrsta Kvennahlaupinu sem haldið er af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, ÍSÍ. Engin takmörk eru fyrir fjölda þátttakenda en öll umgjörð hlaupsins er með talsvert breyttu sniði vegna COVID-19 faraldursins.

Til dæmis verður þeim þátttakendum, sem hyggjast leggja af stað frá skipulögðum hlaupastöðum, skipt niður í hópa. Hrönn Guðmundsdóttir hjá ÍSÍ segir að skipulagið liggi ekki ljóst fyrir á þessari stundu, það muni helgast af þeim sóttvarnareglum sem verði í gildi þegar hlaupið verður. „En við munum skipa hópnum einhvernveginn niður þannig að það leggi ekki allir af stað á sama tíma,“ segir hún.

Hægt að hlaupa að heiman

Önnur nýbreytni verður að nú getur fólk skráð sig í hlaupið og síðan valið hvaðan það hleypur. „Fólk getur þess vegna hlaupið heiman frá sér. Eða bara hvaðan sem er. Svo mælumst við til þess að fólk sendi okkur myndir og við munum síðan safna þeim saman til að sýna fjölbreytnina,“ segir Hrönn.

Verðlaunapeningar hafa verið veittir þátttakendum í Kvennahlaupinu nánast frá byrjun, en Hrönn segir að vegna umhverfissjónarmiða hafi verið horfið frá því í ár. Skráning í hlaupið hófst í dag og við það tilefni var Kvennahlaupsbolurinn 2020 afhjúpaður en hann er hannaður af Lindu Árnadóttur.

Eliza Reid, forsetafrú, í Kvennahlaupsbolnum 2020.
annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir