Katrín við TIME: „Mikilvægt að setja egóið til hliðar“

22.05.2020 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson/Þór Ægisson - RÚV
„Það sem við getum lært af þessu er að það er mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að setja egóið til hliðar og hlusta á þá vísindamenn sem takast nú á við erfiðleika sem enginn bjóst við.“ Þetta segir Katrín Jakobsdóttir í viðtali við Katie Couric, fréttamann bandaríska tímaritsins TIME.

Í umfjöllun TIME er bent á að Ísland sé í hópi þeirra landa í Evrópu þar sem eru fæst COVID-19 smit. Og að Katrín sé í hópi þeirra kvenleiðtoga sem hefur verið hrósað fyrir viðbrögð stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum. „Ég held að það sé ekki tilviljun,“ segir Katrín. 

Hún bætir engu að síður við að margir karlkyns leiðtogar hafi staðið sig vel í baráttunni við farsóttina.  „En að vera reiðubúinn til að viðurkenna að þú ert alltaf að læra og að þú munir gera mistök er eitt stærsta viðfangsefni leiðtoga. Kannski eiga konur auðveldara með það en karlar.“ 

Á vef TIME kemur fram að fá smit hafi greinst á Íslandi síðustu daga þrátt fyrir að tekin hafi verið meira en 57 þúsund sýni.  Þá segir TIME að á meðan almenningur í Bretlandi og Bandaríkjunum hafi oft og mörgum sinnum farið gegn ráðleggingum yfirvalda hafi Íslendingar, með nokkrum undantekningum þó, farið eftir fyrirmælum. „Ísland er lítið land og það sem við höfum upplifað í þessari farsótt er mikil samstaða,“ segir Katrín.  Allir hafi verið látnir finna til ábyrgðar. „Við þurfum öll að vera hluta af þessu til að þetta gangi upp.“ 

Couric biður Katrínu um að lýsa fyrstu fimm mánuðum ársins og forsætisráðherra viðurkennir að þeir hafi verið allt öðruvísi en hún átti von á. „Mikilvægast er að þú veist aldrei hvaða áskoranir bíða þín og þú verður alltaf að vera reiðubúinn til að læra.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi