Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ímynda sér lævi blandið andrúmsloft kaldastríðsáranna

Mynd: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir / Skoffín

Ímynda sér lævi blandið andrúmsloft kaldastríðsáranna

22.05.2020 - 16:35

Höfundar

Í dag kom út sjö laga platan Skoffín hentar íslenskum aðstæðum, með íslensku rokksveitinni Skoffín. Platan er hálfgerð þemaplata, en á henni vinnur sveitin með lævi blandið andrúmsloft íslensku kaldastríðsáranna – skapar sína eigin ímynduðu fortíð í tónum og textum.

Skoffín byrjaði sem sólóverkefni gítarleikarans og söngvarans Jóhannesar Bjarka Bjarkasonar og einn síns liðs gaf hann út þó nokkur lög á stutt- og smáskífunum Í Hallargarðinum (2016) og Lísa Lísa / Bína Bína (2018). Fyrsta breiðskífa Skoffíns kom út í fyrra, Skoffín bjargar heiminum, og hafði Jóhannes þá safnað hljómsveit í kringum sig – og nú er liðskipanin orðin föst. Bjarni Daníel Þorvaldsson gítarleikari segir hópinn að smám saman hafa vaxið í að vera hljómsveit frekar en bakgrunnsspilara fyrir forsprakkann.

Skoffín hentar íslenskum aðstæðum átti upphaflega að vera lítil plata sem fylgdi eftir stóru plötunni en verkefnið óx hratt og örugglega, sérstaklega eftir að bróðir Jóhannesar, Árni Hjörvar Árnson, sem hefur gert garðinn frægan með bresku hljómsveitinni The Vaccines, hvatti þá til að taka plötuna upp aftur og þá í hljóðveri hans í London þar sem hann stýrði upptökum. Úr því varð að fyrri upptökum var hent í ruslið og byrjað upp á nýtt í Bretlandi.

Úreltar skilgreiningar

Platan inniheldur sjö lög og þegar hljómsveitin er beðin um að setja plötuna í hefðbundið flokkunarkerfi tónlistarútgáfu svarar Bjarni Daníel einfaldlega: „Þetta er bara tónlist,“ og Jóhannes bendir á hvernig stafræn útgáfa hefur gert slíkar skilgreiningar óþarfar: „Það skiptir eiginlega engu máli hvað þú kallar plötur í dag. Það er ekki lengur þessi fasta skipan á hvað telst sem breiðskífa, EP eða LP. Þetta var upphaflega hugsað sem stuttskífa en svo bara föttuðum við að þetta skiptir engu máli.“

„Verkefnið vatt líka upp á sig og var orðið þannig í umfangi að okkur leið eins og við værum að gera breiðskífa. Umfangið og tilfinningin var stærri en að við værum bara að dútla í einhverju EP,“ segir Bjarni Daníel.

Sprengjan og loftslagsváin

Þema plötunnar er Ísland kaldastríðsins – eða að minnsta kosti ímyndað Ísland fortíðarinnar eins og það birtist í hugarheimi liðsmanna hljómsveitarinnar. Hugmyndin segir Jóhannes að hafi komið þegar hann rökræddi við foreldra sína um loftslagsbreytingar og loftslagskvíða og áttað sig á því að fyrir kynslóð foreldra hans hafi kjarnorkuváin verið svipuð ógn um framtíðina, yfirvofandi heimsendir. „Það rann upp fyrir mér að þessi ótti sem við unga kynslóðin búum við í dag er kannski ekkert ósvipuð þessari kjarnorkuógn sem eldri kynslóðir upplifðu. Mér fannst mjög skemmtilegt að setja þetta tvennt í samhengi og búa til þessa tengingu á milli.“

Stemningin á plötunni er því uppfull af yfirvofandi heimsslitum, tilvistarangist og kvíða. Þeir segja upptökustjórn Árna Hjörvars hafa enn fremur keyrt upp þetta andrúmsloft  á plötunni. „Hann skrúfaði upp í öllum kvíðanum, nojunni og vitleysunni og gerði þetta að skemmtilegri plötu fyrir vikið.“

Í textunum er reynt á þessa tengingu en auk þess heyrast ýmis hljóðbrot úr íslenskum ljósvakamiðlum og mynda hljóðmynd þessarar ímynduðu fortíðar: „Við erum að sampla gamlar íslenskar upptökur, auglýsingar og fleira í þeim dúr. Við erum að skapa einhversskonar dystópíska sýn á hlutina og framvindu mála,“ segja þeir.

Tónlistin er nokkuð hreinræktuð hressileg gítar-rokktónlist sem sækir í mörg tímabil og flest meginlandsvæði nútímarokktsögunnar. En Skoffín eru einnig meðvitaðir um að tengja sig inn í íslenska dægurtónlistarhefð og popptónlist þess tíma sem þeir eru að rannsaka. Þeir nefna þar ekki síst lagið „Skoffín vinnur sem tæknifræðingur hjá borginni“ sem þeir segja vera hálfgerðan doo-wop slagara. „Lagið sjálft og hljóðheimurinn sem við erum að vinna mðe þar sækir mjög grimmt í þjóðlagahefð sjötta og sjöunda áratugarins en textinn veltir fyrir samtímavandamálum.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Stressi yfir sætum stelpum stillt móti kjarnorkustríði

Tónlist

Fer úr popptónlist í umferðarverk fyrir sinfóníuna

Tónlist

Gróa og K.óla ásamt fleirum hljóta Kraumsverðlaun

Popptónlist

Glitrandi indípopp