Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Icelandair fær sennilega að auka hlutafé

22.05.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna á ekki von á öðru en að stjórn Icelandair fái heimild til að auka hlutafé í félaginu á hluthafafundi í dag. Lífeyrissjóðurinn hefur ekki ákveðið hvort hann taki þátt í hlutafjárútboðinu.

 

Stjórn Icelandair Group leggur í dag fram tillögu á hluthafafundi um hún fái heimild til að afla næstum 30 milljarða króna í nýtt hlutafé, og hluthafar falli frá forkaupsrétti. Fundurinn verður haldinn klukkan fjögur á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík.

„Ég á ekki von á öðru en að stjórnin fái þessa heimild sem hún leggur til að auka hlutafé í félaginu," segir Stefán Sveinbjörnsson, formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem er næststærsti hluthafi Icelandair, á eftir fjárfestingarhópnum PAR investment.  Þar með sé björninn þó ekki unninn: „Síðan á eftir að finna fjárfesta til að kaupa þetta hlutafé og það á bara eftir að koma í ljós á hvaða kjörum það verður og hvernig áætlanir félagsins líta út."

Víðtækar heimildir

Örlög Icelandair ráðast því tæplega í dag. Stjórnin fer fram á víðtækar heimildir til að bjarga félaginu án þess að bera ákvarðanir sínar undir hluthafa. Hlutur núverandi eigenda verður aðeins 15% ef tekst að afla allra 30 milljarðanna. Lífeyrissjóðirnir eiga síðan eftir að ákveða hvort þeir fjárfesti í nýju hlutunum. Þar kemur meira til en fjárfestingin, því lífeyrissjóðirnir þurfa að líta til samfélagsábyrgðar í fjárfestingum sínum. 

Nú ert þú ekki bara formaður lífeyrissjóðs verslunarmanna, þú ert líka framkvæmdastjóri VR, hvað finnst þér um framgöngu Icelandair í deilunni og þetta bréf sem Bogi sendi í gær?

„Ég skal ekki segja til um það. Kjaradeilur geta oft farið að snúast um ýmis atriði og farið á ýmsan veg, en menn þurfa auðvitað að virða þær leikreglur sem eru á markaði þegar það er fjölmiðlabann og slíkt, þannig að það þarf bara að vera skýrt hvernig það er."

En kemur þetta útspil til með að hafa áhrif á ákvarðanir LV?

„Ég skal ekkert segja til um það, það þarf bara að koma í ljós hvernig útboðslýsingin lítur út og hvernig fjárfestingin verður á þeim tíma."

Þannig að þið munið horfa meira á fjárfestinguna en samfélagsábyrgðina?

„Við munum horfa á hvort tveggja," segir Stefán.

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV