H&M setti starfsmenn á hlutabætur - listinn birtur

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist/RÚV
Ein stærsta fatakeðja heims, H&M, er á meðal þeirra fyrirtækja sem nýta sér hlutabótaleiðina. Vinnumálastofnun birti í dag listann yfir öll þau fyrirtæki sem hafa nýtt sér þessa leið. Á listanum eru fjölmörg íþróttafélög, kaffihús, Strætó bs., rútubílafyrirtæki, útgerðarfélög og fleiri fyrirtæki.  

Í frétt á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að undanfarna daga hafi verið ákall um að listinn yrði birtur. Sú krafa varð mjög hávær eftir að greint var frá því að efnahagslega vel stæð fyrirtæki á borð við Össur, Haga og fleiri fyrirtæki nýttu sér hlutabótaleiðina.

Einstaklingar en ekki fyrirtæki fá greitt

Vinnumálastofnun tekur fram að bætur séu ekki greiddar til fyrirtækja heldur tekur stofnunin við umsóknum frá einstaklingum og greiðir atvinnuleysistryggingar til þeirra. „Krafa um birtingu á lista snýr ekki að þeim einstaklingum sem fá greiddar atvinnuleysistryggingar enda er flestum ljóst að slíkar upplýsingar skuli fara leynt,“ segir í yfirlýsingunni.  

Vinnumálastofnun segist standa frammi fyrir þeim vanda að afhending og birting á umræddum lista feli í sér upplýsingar um einka- og/eða fjárhagsmálefni þeirra einstaklinga sem hafa leitað til stofnunarinnar. Með því að birta upplýsingar yfir öll fyrirtæki sem hafa staðfest samkomulag um minnkað starfshlutfall hjá starfsfólki sínu, kunni Vinnumálastofnun um leið að vera að upplýsa um þá einstaklinga sem hafa sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Fyrirtæki með færri en sex starfsmenn ekki á listanum

Vinnumálastofnun tók ákvörðun um að birta lista með nöfnum þeirra fyrirtækja sem staðfest hafa samkomulag um minnkað starfshlutfall við sex starfsmenn eða fleiri. Með þessum hætti telur stofnunin að orðið sé við þeirri kröfu með fullnægjandi hætti, að birta upplýsingar um og veita aðhald með ráðstöfun á opinberu fé, tryggja gagnsæja stjórnsýslu, gæta almannahagsmuna og tryggja um leið að persónuvernduð réttindi einstaklinga.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi