Hluti vinnubúða eyðilagðist í eldi

22.05.2020 - 11:27
Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Árnessýslu
Hluti vinnubúða Íslenskra aðalverktaka í Ölfusi eyðilagðist í eldi í nótt. Eldurinn uppgötvaðist á fjórða tímanum í nótt og barst Brunavörnum Árnessýslu hjálparbeiðni um stundarfjórðung yfir þrjú. Í fyrstu var ekki ljóst hvort eldurinn var í gistiheimili undir Ingólfsfjalli eða í vinnubúðum Íslenskra aðalverktaka sem reistar voru vegna vinnu við breikkun Suðurlandsvegs.

„Þegar fyrstu menn eru að nálgast vettvang er orðið ljóst að þetta var í vinnubúðunum. Við vissum ekki í fyrstu hvort að einhverjir væru inni en það kom fljótlega í ljós að engir voru á staðnum,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.

Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Árnessýslu

Þegar var hafist handa við slökkvistarf. Eldurinn var í mötuneyti og eldhúsi vinnubúðanna. „Þetta var heilmikill eldur og mikil hætta á að hann myndi breiðast út í búðirnar frekar. Með markvissu slökkvistarfi tókst að hamla því,“ segir Pétur. „Það spilaði einnig með okkur að vindurinn stóð af norðri og það kviknaði í sunnan til í búðunum. Þannig að vindurinn hjálpaði til við að útbreiðslan yrði ekki jafn hröð í restina af húsnæðinu. Það spilaði með okkur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Árnessýslu

Pétur slökkviliðsstjóri. segir að svo virðist sem byggingarnar séu að hluta úr plastefnum og reykurinn því baneitraður. Slökkviliðsmenn sem næst eldinum stóðu voru því í reykkafarabúningum og þeir sem fjær voru höfðu filtergrímur til að verjast innöndun eiturefna.

Eldsvoðinn hefur engin áhrif á breikkun Suðurlandsvegar, sem hófst fyrir mánuði.

Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Árnessýslu
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi