Fitch Ratings: Horfum breytt úr stöðugum í neikvæðar

Mynd með færslu
 Mynd: Styrmir Kári - Fjármálaráðuneytið
Ríkissjóður er með óbreytta A-lánshæfiseinkunn en horfum lánshæfismats hefur verið breytt úr stöðugum í neikvæðar. Hætta er á að áhrif kórónuveirufaraldursins reynist enn meiri en nú er vænst. Útlit sé fyrir skarpan efnahagssamdrátt, versnandi afkomu hins opinbera og markverða hækkun skulda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Þar segir enn fremur að Fitch Ratings hafi metið stöðu Íslands sterka í aðdraganda farsóttarinnar.

Afgangur hafi verið af rekstri hins opinbera og skuldastaða þess orðin lág. Þá hafi efnahagsreikningar heimila verið sterkir og gjaldeyrisforði þjóðarbúsins stór.

Matsfyrirtækið telur að lánshæfiseinkunnir gætu hækkað ef væntingar styrkjast um að hagkerfið komist hjá langvinnum erfiðleikum eftir áfallið sem nú ríður yfir.

Þær gætu aftur á móti lækkað ef niðursveiflan verður alvarlegri og langvinnari en reiknað er með. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi