Fimm hentug til að framkalla ónæði í fjölbýlishúsum

Mynd með færslu
 Mynd: Dead Oceans - Khruangbin

Fimm hentug til að framkalla ónæði í fjölbýlishúsum

22.05.2020 - 12:45

Höfundar

Að þessu sinni er boðið upp á virkilega hressandi gítarpopp frá Melbourne, gallsúrt súrkálsrokk frá Gautaborg, taílenska Texasgrillveislu, frekar jákvætt danspopp og ruddalegan rave-slagara af gamla skólanum í fimmunni.

Rolling Blackouts Coastal Fever – Shes There

Melbourne-melirnir í Rolling Blackouts Coastal Fever sigruðu indírokk heiminn og gagnrýnendur á árinu 2018 með sinni fyrstu plötu Hope Downs og nú er komið að erfiðu plötu númer tvö. Sú hefur fengið nafnið Sideways to New Italy og lagið She's There er einmitt af henni og hljómar bara ansi vel.


Skuldpadda – Wild Card

Þá drífum við okkur í súrkálsveislu frá Gautaborg í boði hljómsveitarinnar Skuldpadda sem er enn að finna í undirheimum rokksins. Þau hafa nýlega gefið út aðra plötu sína og miðað við veisluna sem söngullinn Wild Card er þá gæti þetta orðið eitthvað.


Khruangbin – So We Won't Forget

Texas-taí-fönktríóið Khruangbin heldur áfram að lauma út lögum af væntanlegri plötu sinni Mordechai og heimurinn er að taka vel í þetta. Lagið So We Won't Forget er bara þægilegt og fær mann til að hugsa um hvort það sé nú ekki kominn tími á að einhver bjóði manni í matarboð.


Joe Goddard og Hayden Thorpe – Unknown Song

Strákarnir Joe Goddard úr Hot Chip og Hayden Thorpe sem var í Wild Beasts hafa sent frá sér Unknown Song sem er dansvænn og jákvæður slagari. Lagið minnir bréfritara á poppslagara níunda áratugsins frá meisturum eins og Soft Cell og Bronski Beat en samt án þess að vera einhver hermikráka.


Georgia – 24 Hours

Fótboltastelpan fyrrverandi, Georgia, hefur heldur betur verið vinsæl í ár, bæði með lögin sín og í samstarfi við aðra, þar á meðal Gorillaz og Mura Masa. 24 Hours er virkilega hressandi rave-smellur af gamla skólanum endurhljóðblandaður af meistara Derrick May undir nafninu Rythm Is Rythm.


Fimm á föstudegi á Spotify