Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Enn verri staða þegar uppsagnarfrestir renna út

Mynd: RÚV / RÚV
Atvinnuleysi í Suðurnesjabæ hefur aukist hratt síðustu vikur vegna áhrifa kórónuveirunnar á ferðaþjónustu. Stór hluti íbúa sveitarfélagsins starfar á flugvellinum eða við annars konar þjónustu tengda honum. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, segir að útsvarstekjur hafi dregist og hann hefur áhyggjur af stöðunni þegar líður tekur að hausti og uppsagnarfrestir margra renna út.

„Ég geri ráð fyrir því eftir árið, þegar upp verður staðið, að það verði töluverður samdráttur. Ég og fleiri höfum áhyggjur af því hvernig staðan verður í haust þegar uppsagnarfrestir renna út og svo framvegis þannig að það er því miður ekki alveg nógu gott útlitið fram undan, finnst mér,“ sagði Magnús í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Suðurnesjamenn eru vanir sveiflum

Þrátt fyrir stöðuna er fólk í Suðurnesjabæ bjartsýnt, enda er þetta ástand tímabundið, að sögn Magnúsar. „Suðurnesjamenn eru auðvitað orðnir vanir miklum sveiflum í atvinnulífi og öðru þannig að þetta er ekkert alveg nýtt í sjálfu sér, að lenda í svona niðursveiflu. En fólk ber sig vel og það er bjartsýni. Við vonum auðvitað að þetta fari að rétta sig af og sérstaklega að fólk fari að fá atvinnu aftur. Það er auðvitað grundvallaratriði,“ segir hann.

Fjölga sumarstörfum vegna ástandsins

Í Suðurnesjabæ hefur verið gripið til ýmissa aðgerða vegna ástandsins. Til dæmis hefur fólki sem gengur illa að standa í skilum við sveitarfélagið verið boðið að gera samninga um greiðslur. Þá verður boðið upp á fleiri sumarstörf fyrir ungmenni í ár en áður. Magnús segir að ungt fólk hafi síðustu ár getað fengið sumarvinnu á flugvallarsvæðinu en að það sé ekki inni í myndinni núna. Sveitarfélagið hafi ákveðið að bregðast við stöðunni með myndarlegum hætti.