Enginn komst lífs af í flugslysi í Pakistan

22.05.2020 - 13:05
Erlent · Asía · flugslys · Pakistan
epa08437441 Locals inspect the wreckage of a passenger plane of state run Pakistan International Airlines, at the scene after crashed on a residential colony, in Karachi, Pakistan, 22 May 2020. A PIA Airbus A-320 flight from Lahore to Karachi carrying some 107 passengers and crew, crashed while landing in Karachi on 22 May.  EPA-EFE/REHAN KHAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Enginn komst lífs af þegar farþegaþota frá Pakistan International Airlines fórst í dag í aðflugi við flugvöllinn í Karachi í Pakistan. Hún var að koma frá borginni Lahore. Þotan brotlenti í íbúðahverfi. Nokkur hús eyðilögðust.

AFP fréttastofan hefur eftir stjórnanda háskólasjúkrahúss í Karachi að þangað hafi verið komið með átta lík og fimmtán slasaða íbúa hverfisins. Að sögn talsmanns flugfélagisns var 91 farþegi um borð og sjö manna áhöfn.

Ijaz Ahmad Shah, innanríkisráðherra Pakistans, greindi fjölmiðlum frá því að vélarbilun hafi verið orsök flugslyssins. Flugmennirnir hafi náð að senda út neyðarkall áður en þotan skall til jarðar.

Margir eru á faraldsfæti þessa dagana í Pakistan og -öðrum íslömskum ríkjum vegna enda föstumánaðarins ramadan og upphafs Eid al-Fitr hátíðarinnar. Hefð er fyrir því að fólk fagni henni með sínum nánustu.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV