Eðlilegt að brotna saman eftir mikið súkkulaðiát

Mynd: RÚV / RÚV

Eðlilegt að brotna saman eftir mikið súkkulaðiát

22.05.2020 - 11:49

Höfundar

Það er ómögulegt að horfa á kvikmyndina Chocolat án þess að háma sjálfur í sig súkkulaði á meðan. Borði maður hins vegar yfir sig af því, eins og einn þorpsbúa gerir í myndinni, er ekkert óeðlilegt að kjökra smá að mati Tinnu Hrafnsdóttur. Chocolat er sýnd í Bíóást á RÚV á laugardag kl. 22.30.

Leikkonan og leikstjórinn Tinna Hrafnsdóttir var mikill aðdáandi bæði Juliette Binoche og Johnnys Depp, þegar hún komst að því árið 2000 að kvikmynd með þeim tveimur í aðalhlutverkum væri komin í kvikmyndahús. Hún keypti sér strax miða. „Þau voru aðalstjörnurnar í mínum huga á þeim tíma,“ segir hún.

Kvikmyndin gerist í litlu frönsku sveitaþorpi og fjallar um einstæða móður og sex ára dóttur hennar sem valda miklum titringi á meðal þorpsbúa með því að opna þar súkkulaðiverslun. „Í upphafi myndar koma þær inn með látum. Það er mikill vindur og kirkjudyrnar fjúka upp þegar þær birtast,“ segir Tinna. Þorpsbúar eru í miðri föstu þegar mæðgurnar opna verslunina og vekur það reiði margra að þar séu þær að freista þeirra að rjúfa föstuna. „En móðurinni tekst að komast inn í sálarlíf fólks með súkkulaði, enda er þetta ekkert venjulegt súkkulaði,“ segir Tinna leyndardómsfull. „Það má segja að það sé ákveðið töfraraunsæi í myndinni því þetta súkkulaði hefur mikil áhrif á fólk og býr yfir töframætti. Við það að fá sér súkkulaðið verður fólk víðsýnna, glaðara og elskar dýpra.“

Tinna hefur séð myndina tvisvar og hafði vit á því að byrgja sig upp af súkkulaði fyrir annað áhorf. „Það er algjört möst,“ segir hún. „Það er verið að sýna þegar verið er að hræra í pottunum og smjatta á því. Það er eiginlega ekki hægt annað en að hlaða sig upp af súkkulaði áður en maður byrjar að horfa.“

Hún á sér líka uppáhaldsatriði í myndinni sem sýnir það þegar sá þorpsbúi sem er allra ákveðnastur í föstunni, fellur í freistni. „Hann er alveg eftir bókinni, vill fara eftir öllum reglum og er ofsalega bældur. Og það er atriði þegar hann getur ekki staðist þetta lengur,“ segir Tinna. „Hann algjörlega kolfellur í syndina, byrjar á einum súkkulaðibita og svo fylgjumst við með honum fá sé annan og annan og meira og meira. Ég man að hugsa þegar ég sá þetta atriði: Veistu, ég skil þig svo vel. Svona er bara með súkkulaði. Ef maður leyfir sér að falla í freistinguna og borðar eins mikið og maður getur endar maður á því að gráta eins og hann gerir í lokin.“

Chocolat er á dagskrá á RÚV á laugardag kl. 22.30.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Næstbesta bíómyndin gerð eftir bók Stephens King

Kvikmyndir

Völundarhús þjáðs huga eftir sáran missi