Bæjarblöð í ólgusjó vegna dreifingar og veiru

22.05.2020 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Breytingar á dreifingu fjölpósts hjá Póstinum, sem tóku gildi um mánaðamótin, mælast misvel fyrir hjá aðstandendum bæjarblaða. Miðlarnir hafa sumir hverjir leitað nýrra lausna við útgáfu til að bregðast við tekjufalli vegna kórónuveirunnar með góðum árangri.

Um síðustu mánaðamót hætti Pósturinn að dreifa ónafnmerktum fjölpósti inn á heimili  á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Selfossi og Akranesi. Með því er ætlunin að lækka kostnað Póstsins vegna dreifingar um allt að 200 milljónir króna á ári. Breytingin mælist misvel fyrir hjá útgefendum. Páll Hilmar Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, segir að samhliða breyttri dreifingu hafi kórónuveirufaraldurinn ýtt miðlinum yfir á rafrænt form.

„Það verður mikið fall á tekjum, auglýsingasala minnkar mjög mikið strax í upphafi kórónuveirunnar. Á sama tíma blasti við að Pósturinn ætlaði að hætta að dreifa blaðinu. Þannig að við bara snerum okkur yfir í rafræna útgáfu og það hefur bara gengið mjög vel,“ segir Páll.

Óljós framtíð prentunnar

Ekki hefur verið ákveðið hvort prentun verður alfarið hætt en Páll Hilmar segir að vefútgáfan sé hentug fyrir bæjarblöð og minni miðla. 

„Ég hvet aðra miðla til að skoða þetta. Þetta er mjög góð lausn og auðvelt að gera þetta. Ísland er nettengdasta land í heimi. Við erum að halda áfram að skrifa söguna. Við erum búin að talavið  og taka viðtöl við yfir 200 suðurnesjamenn seinustu 9 vikurnar á veirutímum og erum sannarlega að skrifa samfélagssögunna hér á Suðurnesjum,“

Aukin kostnaður vegna gjaldskrárbreytinga 

Pósturinn hefur einnig fellt niður afsláttarkjör til bæjar og héraðsblaða. Þær breytingar eru íþyngjandi að mati Gunnars Gunnarssonar, ritstjóra Austurgluggans, sem segir að kostnaður hafi aukist um 25 til 30 prósent. Þar á bæ eru ekki forsendur til að skipta yfir í rafræna útgáfu.

„Blaðið er okkar stærsti tekjupóstur, bæði af því að við seljum áskriftir og til þessa hefur verið auðveldara að selja auglýsingar í prent í landsbyggðarmiðlum, svo við hlaupum ekki að því að breyta útgáfunni okkar. Við erum lítil rekstrareining með enga varasjóði svo við þurftum að finna leiðir til að mæta þessu,“

Og hverjar eru þær? 

Við skoðuðum nokkra kosti, við skoðuðum að fækka útgáfudögum sem við töldum ekki físilegt vegna tekjutaps í auglýsingum á móti. Á tímapunkti þurftum við að velta því upp hvort að við ætluðum að halda áfram. Á endanum ákváðum við að hækka áskriftargjöldin um tíu prósent. Við töldum það vera einu leiðina sem okkur var almennilega fær. Við reiknum með að hún dugi um það bil fyrir útgjaldaaukanum.“

Hann segir að minni miðlar liggi á bæn um að fjölmiðlafrumvarpið verði samþykkt á Alþingi til að treysta rekstrargrundvöll þeirra og veita þeim svigrúm til tækniþróunar, sem sé kostnaðarsöm .
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi