Atkvæðagreiðslu hjá flugmönnum lýkur klukkan 16

22.05.2020 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: Flickr/BriYYZ
Rafrænni atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning flugmanna og Icelandair lýkur klukkan fjögur í dag, en hún hófst á föstudag fyrir viku. Búist er við að niðurstöður liggi fyrir örfáum mínútum eftir að atkvæðagreiðslunni lýkur.

Samningurinn við flugmenn gildir til 30. september 2025 og telja stjórnendur Icelandair hann vera í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika verulega.

Flugvirkjar hjá Icelandair samþykktu kjarasamning í atkvæðagreiðslu sem lauk á miðvikudag, en Icelandair á enn eftir að semja við Flugfreyjufélag Íslands. 

Eins og kunnugt er hefur verið boðað til hluthafafundar hjá Icelandair klukkan 16 í dag. Þar verður tekin afstaða til þess hvort ráðist verður í hlutafjárútboð til að bæta lausafjárstöðu félagsins. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV