Andlátið í Úlfarsárdal bíður ákærumeðferðar

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Rannsókn lögreglu á andláti karlmanns, sem lést, er hann féll fram af svölum á blokk við Skyggnisbraut í Úlfarsárdal í byrjun desember í fyrra, er nú lokið og bíður nú ákærumeðferðar hjá embætti héraðssaksóknara. Karlmaður sat í gæsluvarðhaldi og sætti síðar farbanni vegna málsins.

Að sögn Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var málið sent saksóknara í byrjun apríl. Hann segir að engin ákæra hafi enn verið gefin út.

Andlátið var frá upphafi rannsakað sem sakamál, en fimm menn, allt erlendir ríkisborgarar, voru handteknir í íbúðinni sem svalirnar tilheyrðu eftir að lögregla braut sér leið þangað inn.

Einn þeirra var úrskurðaður í gæsluvarðhald og sætir hann nú farbanni til 3. júní.