Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áfram geisa stríð þrátt fyrir heimsfaraldur

22.05.2020 - 19:31
Mynd: EPA-EFE / EPA
Hundruð þúsunda hafa neyðst til að leggja á flótta vegna stríðsátaka á aðeins tveimur mánuðum. Framkvæmdastjóri norskra hjálparsamtaka segir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi ekki gert neitt til þess að þrýsta á vopnahlé í heiminum.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallaði eftir því 23. mars að stríðandi fylkingar um heim allan leggðu niður vopn. Það hefur ekki gengið eftir því samkvæmt norsku hjálparsamtökunum Flóttamannahjálpinni neyddust að minnsta kosti 660 þúsund manns til að flýja vopnuð átök á tímabilinu 23. mars til 15. maí. Jan Egeland, framkvæmdastjóri Flóttamannahjálparinnar, þetta áfellisdóm yfir milliríkjasamskiptum. „Þetta er einnig áfellisdómur yfir Öryggisráðinu sem hefur á engan hátt stutt ákall framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um allsherjarvopnahlé vegna COVID-19,“ segir Egeland. 

epa06148344 Jan Egeland, Senior Advisor to the United Nations Special Envoy for Syria, informs to the media after a meeting of the International Syria Support Group's Humanitarian Access Task Force, during a press conference, at the European
Jan Egeland, erindreki Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA - KEYSTONE
Jan Egeland er framkvæmdastjóri norsku hjálparsamtakanna Flóttamannahjálpin.

Samtökin hafa skrásett vopnuð átök og ofbeldi í minnst nítján ríkjum. Egeland segir ástandið langverst í alþýðulýðveldinu Kongó. „Þar hafa ýmsar fylkingar hrakið 480.000 frá heimilum sínum. Þessir hópar starfa ekki í tóminu, þeir fá stuðning og vopn og enginn dregur þá að samningaborðinu.“

Berskjölduð fyrir heimsfaraldri

Staðan er einnig slæm í Afganistan, Jemen, Chad og Niger. Þau hundruð þúsunda sem neyðast til að flýja heimili sín á þessum tímum eru ekki aðeins að missa allt sitt, heldur eru þau sérstaklega berskjölduð fyrir kórnuveirufaraldrinum. „Þetta á eftir að koma aftan að okkur á ný af því að veiran kemur aftur í bylgjum, vegna þess að hún lifir af á þessum stöðum þar sem næg samstaða fæst ekki núna,“ segir Egeland.  

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV