Verkalýðsfélög mættu sýna meiri ábyrgð

21.05.2020 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Seðlabankastjóri segir að verkalýðsfélögin mættu sýna meiri ábyrgð vegna Covid-kreppunnar, og hjálpa til við að fleyta fyrirtækjum yfir erfiðleikatímabilið. Leigusalar gætu líka lagst betur á árarnar með atvinnulífinu. Ríkissjóður ætti að koma síðastur að borðinu.

 

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti niður í eitt prósent í gær, og hafa þeir aldrei verið lægri. Hann er líka byrjaður að kaupa ríkisskuldabréf, til að létta undir með ríkissjóði. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hvatti í kjölfarið viðskiptabankana til að draga úr vaxtamun og greiða fyrir útlánum. Hann segir mikilvægt að allir axli ábyrgð á ástandinu og leggist á eitt við að fleyta hagkerfinu yfir erfiðasta hjallann.

„Það er mjög mikilvægt að fyrirtæki geti samið við bankann sinn, við leigusalann sinn, og að einhverju leyti samið við starfsmenn sína," segir Ásgeir. 

Hann segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að ekki hafi allir tekið ábyrgð á ástandinu, og nefnir þar sérstaklega verkalýðsfélögin.

„Svona almennt séð þá kom ríkið mjög snemma inn og lagði fram peninga," segir Ásgeir. „Við höfum séð tregðu á því að leigusalar séu reiðubúnir að lækka leigu. Og að einhverju leyti held ég að verkalýðsfélögin mættu sýna meiri ábyrgð í ljósi þess að við erum ekki að sjá verðbólgu sem er að éta upp launin eins og svo oft áður. Alltaf þegar við höfum lent í vandræðum áður, þá féll gengið svakalega og það kom verðbólguskellur sem át launin. Það er ekki að gerast núna."

Ásgeir segir að nú þegar stór hluti þjóðarinnar fær laun úr ríkissjóði í gegnum hlutabótaleiðina, þá þætti honum eðlilegt að verkalýðsfélögin tækju meiri ábyrgð. 

 

Ertu þá að segja að verkalýðsfélögin ættu að eiga frumkvæði að því að lækka laun tímabundið?

„Ég er ekki endilega að segja það," segir Ásgeir. „Við Íslendingar höfum alltaf náð að bregðast við öllum áföllum með góðri samvinnu á vinnumarkaði. Og ef einhver rauður þráður hefur verið í gegnum okkar hagsögu þá hefur það verið þannig. Og ég hefði gjarnan viljað sjá eitthvað svipað núna."

Nú stendur yfir hatrömm kjaradeila milli flugfreyja og Icelandair, finnst þér að flugfreyjur mættu taka meiri þátt í endurreisninni? 

„Ég ætla ekki að taka þátt í einstökum kjaradeilum," segir Ásgeir.