„Verður ekki hægt að gera allt sem okkur langar til“

21.05.2020 - 19:27
Aldrei fór ég suður - mynd úr safni. - Mynd: Ágúst Atlason / Aldrei fór ég suður
Almannavarnir segja að skipuleggjendur sumarhátíða þurfi að sætta sig við að hátíðirnar verði annað hvort með breyttu sniði eða geti jafnvel ekki farið fram. Fjölmörgum viðburðum hefur þegar verið aflýst.

Mögulega mest tvö þúsund sem mega koma saman

Vonir Íslendinga um sigur í Eurovision urðu að engu þegar keppninni var aflýst í vor. Og það stefnir í að fleiri viðburðum verði aflýst í sumar vegna samkomubannsins. Samkvæmt því mega að hámarki tvö hundruð koma saman frá 25. maí. Þremur vikum síðar gæti sú tala hækkað upp í fimm hundruð, en sóttvarnalæknir hefur lagt til að hámarksfjöldi fari ekki yfir tvö þúsund í sumar.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra var ómyrkur í máli á fundi Almannavarna í gær og benti á að þetta sumar komi til með að verða öðru vísi en við eigum að venjast. „Það verður ekki hægt að leysa úr öllum málum, það verður ekki hægt að gera allt sem okkur langar til,“ segir Víðir. „Það eru margir aðilar nú þegar búnir að aflýsa stórum viðburðum sem hafa verið, og hinir sem eru með stóra viðburði - Þið þurfið að horfast í augu við það að þetta verður öðru vísi ástand hjá okkur.“

Sumu frestað, sumt í athugun

Sem dæmi hefur tónlistarhátíðinni Eistnaflugi þegar verið frestað til næsta árs, en búist var við að á annað þúsund þungarokkarar kæmu þar saman. 

Fiskideginum mikla á Dalvík er frestað til næsta árs og Landsmóti hestamanna frestað um tvö ár. Gleðiganga Hinsegin daga fer ekki fram og Miðaldadagar á Gásum verða ekki í sumar. 

Skipuleggjendur Bræðslunnar á Borgarfirði eystra segja allt óvíst með sumarið. Til greina komi að aflýsa en annars verði hátíðin haldin síðustu helgina í júlí og þá í samræmi við tilmæli Almannavarna. Tónleikasalur Bræðslunnar rúmar innan við þúsund manns.

Hátíðarhöldin 17. júní gætu reynst flókin í framkvæmd. Hjá Reykjavíkurborg fengust þau svör að fundað væri reglulega með Almannavörnum um hvort og þá hvernig þetta sé hægt. Eitt sé víst, að hátíðin verður með breyttu sniði.

Stefnt er að því að halda Þjóðhátíð í Eyjum. Hvernig það verður útfært er óvíst, en í Eyjum búa ríflega fjögur þúsund manns, sem vanalega mæta allir sem einn.