Staðfest tilfelli orðin fleiri en fimm milljónir

21.05.2020 - 06:23
epa08429642 A Polish medical staff works at a drive-thru COVID-19 testing lab in Gdansk, nothern Poland, 18 May 2020. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/MARCIN GADOMSKI POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Staðfest kórónuveirutilfelli í heiminum eru nú fleiri en fimm milljónir. Yfir ein og hálf milljón tilfella hafa greinst í Bandaríkjunum, rúmlega þrjú hundruð þúsund í Rússlandi og þau nálgast óðum þrjú hundruð þúsund í Brasilíu. Nærri 250 þúsund tilfelli hafa greinst á Bretlandi, og um 230 þúsund á Spáni og á Ítalíu. Nærri 330 þúsund eru látnir af völdum veirunnar, þar af rúmlega 93 þúsund í Bandaríkjunum. 

Faraldurinn virðist nú breiðast hvað hraðast út í Suður-Ameríku, þar sem tilfellum hefur fjölgað hratt bæði í Brasilíu og í Perú. Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, heldur áfram að tala faraldurinn niður þrátt fyrir mikla fjölgun tilfella í landinu. Hann óskaði þó eftir því í gær að aðgengi að malaríulyfjum verði gert auðveldara, þrátt fyrir mögulegar hættulegar aukaverkanir lyfjanna. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist sjálfur taka lyfið hydroxychloroquine daglega til þess að fyrirbyggja smit. Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna mælir eindregið gegn því. 

Ekki gera ráð fyrir bóluefni

Guardian hefur eftir bandaríska vísindamanninum William Haseltine, sem hefur gert mikilvægar rannsóknir á krabbameini, HIV og eyðni og á erfðamengi mannsins, að besta aðferðin gegn faraldrinum sé smitrakning. Hann leggur til nákvæma smitrakningu og einangrun um leið og veiran nær útbreiðslu. Þá segist hann alls óviss um að hægt verði að framleiða bóluefni gegn veirunni. 

Andrea Ammon, yfirmaður sóttvarnardeildar Evrópusambandsins, biður Evrópuríki um að búa sig undir aðra bylgju kórónuveirufaraldursins. Í hennar huga snýst það aðeins um hvenær hún kemur, og hversu stór hún verður.