Spennufall eftir að dró úr faraldrinum

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Yfirmaður smitrakningateymisins segir flesta í teyminu í spennufalli eftir að dró úr faraldrinum. Erlendum verkamönnum fjölgar sem koma hingað í vinnusóttkví og eru þeir nú tæplega 150.

Einn hefur greinst með COVID-19 hér á landi síðustu rúma viku. Þrír eru með virkt smit. „Við erum ekki að rekja mikið af smitum og þau smit sem hafa komið upp eru tiltölulega einföld í rakningu,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningateymis Almannavarna.

Alls 260 komið í vinnusóttkví

Vinna teymisins snýr nú að því að skrá þá sem koma með flugi og Norrænu í sóttkví. Síðustu þrjá daga hafa nærri 370 farið í sóttkví, langflestir komu með flugi. Tvöhundruð og sextíu hafa í heildina komið hingað í vinnusóttkví, sem þýðir að þeir mega aðeins ferðast á milli vinnu og náttstaðar. „Af þeim sem eru að fara í sóttkví B eru nær eingöngu útlendingar. Farandverkamenn, heilbrigðisstarfsfólk, sérfræðingar úr ýmsum sviðum atvinnulífsins. Þeim hefur fjölgað undanfarið. Og ég held að það séu um tæplega 150 sem eru núna í virkri sóttkví-B,“ segir Ævar Pálmi.

Stefnt er að því að opna landamærin 15. júní. Útfærslan á að liggja fyrir í síðasta lagi á mánudag. Allir sem koma verða að ná í smitrakningaappið. „Það gæti breytt vinnu okkar þannig að mögulega muni virkum smitum fjölga aftur.“

Hvað finnst þér um að það eigi að opna landið aftur? „Ég held að við verðum að gera það og þá á eins öruggan hátt og við getum.“

Úr fimmtíu og tveimur í sex starfsmenn

Stefnt er að því að smitrakningarteymið flytji frá Hótel Loftleiðum þar sem þar hefur verið síðustu vikur, í höfuðstöðvar Landlæknisembættisins. „Teymið fór úr því að vera sex í byrjun upp í 52 þegar við vorum hvað flest. Í dag erum við komin aftur niður í sex. Við sníðum okkur bara stakk eftir vexti“ segir Ævar Pálmi jafnframt.

„Þetta er ákveðið spennufall fyrir flesta sem hafa verið á fullu á meðan þetta hefur staðið sem hæst. Ég bjóst ekki við því að þetta myndi fara svona hratt niður.“