Sein viðbrögð í Bandaríkjunum kostuðu 36.000 mannslíf

21.05.2020 - 12:13
epa08428718 People adhere to social distancing guidelines in Central Park in New York, New York, USA, 17 May 2020. New York city remains the epicenter of the coronavirus Covid-19 outbreak in the US.  EPA-EFE/Peter Foley
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ef reglur um fjarlægðarmörk hefðu verið settar viku fyrr í Bandaríkjunum ef gert var hefðu dauðsföll af völdum Covid 19 verið 36 þúsund færri fram í byrjun maí en raunin varð, samkvæmt mati sjúkdómateymis Columbiu-háskóla. Ef þeim hefði verið beitt tveimur vikum fyrr, eða 1. mars, hefði það komið í veg fyrir 83% dauðsfalla.

Í rannsókninni var útbreiðsla sjúkdómsins skoðuð á tímabilinu 15. mars til 3. maí. 15. mars var gripið til róttækra aðgerða víða í Bandaríkjunum. Skólum var lokað víða, þar á meðal í New York. Daginn eftir beindi Donald Trump Bandaríkjaforseti þeim tilmælum til þjóðarinnar að draga úr ferðalögum, forðast margmenni og halda sig sem mest heima. Þá þegar höfðu tugir þúsunda Bandaríkjamanna smitast af veirunni. 

Athuganir Columbiu-háskóla sýna að þá hafi hegðunarmynstur Bandaríkjamanna breyst og hægt hafi á útbreiðslunni. En það hefði gerst fyrr, ef gripið hefði verið til aðgerða fyrr.

Líkan háskólans segir að ef gripið hefði verið til aðgerða viku fyrr hefðu dauðsföll 3. maí ekki verið orðin 65 þúsund eins og raunin varð, heldur 29 þúsund. Og ef menn hefði gert þetta tveimur vikum fyrr, strax 1. mars, hefðu aðeins 11 þúsund verið látnir 3. maí, eða 83% færri en raunin varð. Semsagt, það hefur reynst dýrkeypt, hversu seint var gripið til aðgerða. 

Jeffrey Shaman smitsjúkdómalæknir sem leiddi rannsóknina sagði í samtali við New York Times að þetta sýndi hve ótrúlega miklu máli það skipti að grípa til aðgerða áður en veiran nái einhverri útbreiðslu.

Hvíta húsið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna rannsóknarinnar þar sem ítrekað er að takmarkanir á ferðum til og frá Kína í janúar og svo Evrópu um miðjan mars hafi hægt verulega á útbreiðslunni.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV