Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir lífskjarasamninginn leiða til meira atvinnuleysis

21.05.2020 - 20:25
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Eyjólfur Árni Rafnsson var endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífins í gær með tæplega 97 prósent atkvæða. Eyjólfur sagði í ávarpi sínu á aðalfundi samtakanna í gær það blasa við að fyrirtæki landsins muni eiga erfitt með að standa undir launahækkunum sem samið var um í Lífskjarasamningnum. Að fylgja þeim eftir leiði við núverandi aðstæður einungis til meira atvinnuleysis en ella.

Eyjólfur sagði í ávarpinu, sem fjallað er um á vef samtakanna, að því miður væri engin samstaða um það í verkalýðsforystunni að taka mið af aðstæðum  „Aðstæðum sem eiga sér enga hliðstæðu í sögu okkar, né ríkir samstaða um að finna leiðir til að tryggja sem best atvinnu fólks og hag fyrirtækjanna sem greiða laun þess. Tjón þeirrar sundrungar er þegar orðið mikið og mun fara vaxandi. Fyrir því verður launafólk fyrst og fremst.“

Mikilvægasta verkefnið framundan væri að ná íslensku atvinnu- og efnahagslífi af stað á ný. „Í þeirri baráttu erum við öll á sama báti, enda eru öflugt atvinnulíf og útflutningur undirstaða velferðarsamfélags okkar.“

Efnahagsaðgerðum stjórnvalda væri ætlað að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa í framhaldinu öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Samtök atvinnulífsins styðji aðgerðir stjórnvalda eindregið.