Rannsókn á eldsupptökum lokið

21.05.2020 - 00:00
default
 Mynd: RÚV - Gunnlaugur Starri Gylfason
Rannsókn tæknideildar lögreglu á eldsupptökum brunans við Hafnarstræti á Akureyri er lokið. Þetta staðfestir lögreglan á Akureyri í samtali við fréttastofu en segir jafnframt að ekki sé unnt að greina frá niðurstöðu rannsóknarinnar að svo stöddu. Á þriðja tímanum í dag fór teymi frá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Mannvirkjastofnun norður til að aðstoða við rannsóknina.

Eldurinn kviknaði á áttunda tímanum í gærkvöld. Húsið, sem er timburhús, er talið ónýtt. Maður var inni í húsinu þegar eldurinn kviknaði. Reykkafarar fundu manninn meðvitundarlausan og liggur hann nú þungt haldinn á Landspítalanum.

Húsið stendur innan um fleiri gömul timburhús og voru næstu hús sunnan við það rýmd, en norðan gola var þegar eldurinn kviknaði. Mikinn reyk lagði um allan innbæinn og í dag þurfti að þrífa íbúðir í Hafnarstræti 25 sem höfðu fyllst af reyk.