Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikið eignatjón í húsbrunanum á Akureyri

21.05.2020 - 00:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Mikið eignatjón varð í húsbrunanum í Hafnarstræti á Akureyri. Rýma þurfti næstu hús og litlu munaði að eldur læsti sig í trjágróður í innbænum. Einn var fluttur á Landspítalann í Reykjavík þar sem hann liggur þungt haldinn.

Húsið við Hafnarstræti 37 er byggt 1903 og er eitt af gömlu timburhúsunum í innbænum á Akureyri sem hafa merka sögu að geyma. Það er mikill eldsmatur í húsi sem þessu og það varð alelda á skömmum tíma.

Erfitt að ráða við eld í svo gömlu húsi

,,Þessi gömlu hús eru náttúrulega alveg hræðileg að eiga við í svona brunum. Af því að eldurinn fer bara um allt inni í veggjunum og erfitt er að ráða við eitt eða neitt," segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akureyrar.

Nágrannarnir reyndu að ná sambandi við íbúa

Hjón í næsta húsi tilkynntu um eldinn, en þá var talið að einn maður væri inni í brennandi húsinu. Þau gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að ná sambandi við hann og börðu á dyr og glugga meðan þau biðu eftir slökkviliðinu. Þau treystu sér ekki til að lýsa reynslu sinni í viðtali. ,,Okkar vinnulag er bara alltaf eitt, tvö og þrjú, að bjarga mannslífum. Slangan er dregin út af bílnum og sett í dælingu og farið inn til að reyna að komast að því hvort það er fólk inni. Sem var í þessu tilfelli," segir Ólafur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson

Næstu hús voru rýmd en mikinn reyk lagði um innbæinn

Reykkafarar fundu manninn meðvitundarlausan og liggur hann nú þungt haldinn á Landspítalanum. Það voru ekki fleiri í húsinu. Húsið stendur innan um fleiri gömul timburhús og voru næstu hús sunnan við það rýmd, en norðan gola var þegar eldurinn kviknaði. Mikinn reyk lagði um allan innbæinn og í dag þurfti að þrífa íbúðir í Hafnarstræti 25 sem höfðu fyllst af reyk. ,,Og hann náttúrulega smýgur inn um allar opnar rifur," segir Ólafur.

Eldurinn barst í gróður á bak við húsið

Það var mikill eldur kominn í gróður í brekkunni á bakvið húsið og um tíma óttaðist slökkviliðið að sá eldur bærist í næstu hús. Ólafur segir að ef eldurinn hefði farið mikið ofar, í trén og annað, þá hefði þetta getað orðið stærra vandamál. Ljóst er að tjónið er mikið og líklegt að rífa þurfi húsið.