Helmingur Twitter reikninga um Covid 19 forritaðir

21.05.2020 - 20:10
A view of a logo for the company Twitter on the floor of the New York Stock Exchange in New York, New York, USA, on 27 July 2018 (reissued 06 February 2020). Twitter on February 2020 released their 4th quarter 2019 results, saying their revenue in a quarter for the first time crossed the 1 billion USD level as it reported a jump in numbers of audience. Revenues were up 11 per cent year on year, while net income dropped 12 per cent to 119 million USD
 Mynd: JUSTIN LANE - EPA
Nær helmingur allra Twitter-reikninga sem tekur þátt í umræðunni um Covid 19 faraldurinn er ekki með raunverulegt fólk á bak við sig. Þeir eru sérstaklega forritaðir til að senda skilaboð með reglubundnum hætti. Þetta er niðurstaða rannsóknar á vefum Carnegie Mellon háskólans.

Í rannsókninni var farið í gengum meira en 200 milljónir tísta um veiruna frá því í janúar. Niðurstaðan var sú að 45% þeirra voru send frá reikningum sem virtist stjórnað af forriti en ekki fólki.

Kathleen Carley prófessor í tölvunarfræði við Carnegie Mellon háskólann segir í samtali við bandarísku útvarpsstöðina NPR að svo virðist sem tilgangur þeirra sé að koma af stað deilum um faraldurinn. Þetta passi við aðferðir sem Rússar og Kínverjar noti, en erfitt sé að staðfesta slíkt með óyggjandi hætti.

Rannsakendur fundu í tístunum yfir 100 rangfærslur um Covid nítján í þeim færslum sem talið er að séu forritaðar. Meðal þeirra eru samsæriskenningar um að sjúkrahús séu full af gínum til að láta líta út fyrir að sjúkdómurinn sé útbreiddari en hann er, sem og að veiran breiðist út með 5G tengingum. Sú kenning hefur meðal annars orðið til þess að kveikt hefur verið í 5G staurum í Bretlandi.

Carley segir að færslur frá svona reikningum séu tvöfalt algengari en spáð hafði verið. Sérstök athygli var vakin á reikningum sem sendir frá sér fleiri færslur en mannlegur máttur ræður við, eða sem lætur eins og hann sé í ólíkum löndum með örstuttu millibili.

Talsmaður Twitter vildi ekki tjá sig um niðurstöðuna þegar NPR leitaði eftir því, en fyrirtækið  hefur áður lýst því yfir að það hafi þegar eytt þúsundum tísta með villandi eða janfvel skaðlegur upplýsingum um kórónuveiruna. Sjálfvirka kerfið hafi aðvarað eigendur 1,5 milljón reikninga.

Carley ráðleggur fólki að skoða sérstaklega færslur með stafsetningarvillum, færslum sem eru sendar hratt, sem og reikninga með skrítnum nöfnum eða myndum á prófíl. Þá eigi í raun alltaf að taka með fyrirvara alla prófíla sem maður þekkir ekki.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV