Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gagnrýndi Samherja og Alþingi fyrir gjafakvóta

21.05.2020 - 16:33
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Þjóðþingið stendur ekki undir nafni meðan það lætur gjafakvótakerfið viðgangast og fólk getur ættleitt börn sín að syndandi fiski í sjónum. Þetta sagði Örn Bárður Jónsson, fyrrverandi prestur í Neskirkju, þegar hann flutti predikun í Breiðholtskirkju í morgun. Messan er tileinkuð eldri borgurum og hefð fyrir að fá presta sem komnir eru á eftirlaun til að flytja predikun. Örn Bárður gerði að umtalsefni nýleg eigendaskipti Samherja þar sem börn stofnenda erfðu stóran hluta fyrirtækisins.

„Nýjasta dæmið er svonefndur fyrirframgreiddur arfur útgerðarmanna nokkurra sem líta á sig sem eigendur sem alls þess sem hjá þeim er bókfært og ætla að arfleiða börnin sín að eign þjóðarinnar sem hefur slæðst inn í bókhaldið, syndandi fiskinn í sjónum,“ sagði Örn Bárður. Hann sagði að nú væri svo illa komið fyrir þjóðinni að hún hefði látið gjafakvótakerfi viðgangast um áratugaskeið.

„Við þurfum auðvitað kvótakerfi, kerfi til að stjórna fiskveiðum, en að Alþingi skuli ekki hafa stöðvað þessa ósvinnu og látið óréttinn viðgangast: framsalið og eignfærsluna í bókhaldinu um árabil, gerir það að verkum að þjóðþingið stendur vart undir nafni sem slíkt. Ég hef áður sagt að ég freistist til að skipta út bókstafnum ð úr orðinu í þjóðþing og setja f í staðinn fyrir ð,“ sagði Örn Bárður.

Örn Bárður sat í stjórnlagaráði sem samdi stjórnarskrá árið 2011. Hann sagði að halda ætti í ákvæði stjórnlagaráðs um þjóðareign á auðlindum en ekki útvatna það. „Nú er mál að hártogunum stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótagreifanna linni og kominn tími til að Alþingismenn þekki sinn vitjunartíma, að þjóðþingið standi undir nafni.“