Fimm metra snjógöng í Mjóafjörð

21.05.2020 - 16:10
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Vegurinn inn í Mjóafjörð hefur verið opnaður. Fjóra daga tók að berjast í gegnum þykkt snjóstálið, sem var sums staðar fimm metrar á hæð og hafði safnast upp í vetur. Vegurinn hefur verið meira og minna lokaður síðan í október.

Í Mjóafirði búa í kringum 14 manns yfir vetrartímann. Í Brekkuþorpi er allt til alls en yfir vetrartímann er eina leiðin til og frá þorpinu sjóleiðis.

„Byrjað var að moka síðastliðinn föstudag. Haldið var áfram á mánudaginn og um miðjan dag í dag, miðvikudag, voru komin mjó göng með útskotum alla leið,“ er haft eftir Ara B. Guðmundssyni yfirverkstjóra á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Reyðarfirði á vef Vegagerðarinnar.

Vegurinn lokaðist í október á síðasta ári. Um miðjan október var vegurinn mokaður fyrir Neyðarlínuna sem þurfti að flytja búnað til að leggja ljósleiðara í Mjóafirði. Þá var mokað á ný mámaðarmótin nóvember, desember til að koma tækjabúnaðinum til baka. Opnunin stóð stutt og fljótlega lokaðist vegurinn á ný og hefur verið lokaður síðan.

Snjórinn á veginum er óvenjumikill og meiri en undanfarin ár. Fyrst um sinn er vegurinn aðeins fær jeppum, í dag ættu fjórhjóladrifnir bílar að komast leiðar sinnar og fólksbílar eftir helgi. Næstu daga verða göngin breikkuð með snjóblásara svo bílar geti mæst með góðu móti.

Að sögn Ara hefur tíðarfarið mikið að segja um það hvenær heiðin er mokuð. „Ef snjórinn er lítill er stundum mokað einstaka sinnum yfir veturinn. Önnur ár er tíðin slæm og dæmi um að moka hafi þurft heiðina til að koma þangað fjárbílum að hausti.“'

Ari segir að íbúar hafi verið langeygir eftir að komast landleiðina frá þorpinu. Moksturinn í ár sé seinni á ferðinni miðað við fyrri ár, þar spili inn í bæði tíðarfarið og COVID-19.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi