Drífa: „Launafólk tekur nú þegar skellinn"

21.05.2020 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd: ASÍ
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir yfirlýsingar Seðlabankastjóra ótrúlegar. Hann telur að verkalýðsfélögin mættu sýna meiri ábyrgð á Covid-kreppunni. Drífa segir að launafólk taki nú þegar skellinn í gegnum kjarasamninga sína.

Seðlabankinn lækkaði vexti niður í eitt prósent í gær til að bregðast við Covid-kreppunni. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kallaði eftir því að bankarnir hleyptu meira fé út í hagkerfið til að létta undir með fyrirtækjum, og gagnrýndi að leigusalar væru tregir til að lækka leigu. Hann sagði í hádegisfréttum að ríkissjóður ætti að verða síðastur til að koma með björgunarúrræðin, þegar allir hinir hefðu lagt sitt lóð á vogarskálarnar.

„Og að einhverju leyti held ég að verkalýðsfélögin mættu sýna meiri ábyrgð í ljósi þess að við erum ekki að sjá verðbólgu sem er að éta upp launin eins og svo oft áður," sagði Ásgeir.

Drífa lýsir furðu sinni á þessum ummælum Ásgeirs: „Það eru náttúrulega ótrúlegar yfirlýsingar hjá Seðlabankastjóra að ætlast til þess að launafólk taki á sig meira högg en nú þegar er orðið. Og hann verður eiginlega bara að fara að svara fyrir þetta, hvað hann eigi við með þessu. Er seðlabankastjóri í alvöru að tala um að launafólk eigi að taka á sig launalækkanir og réttindamissi í þessu árferði, meira en orðið er?"

Lífskjarasamningur þungur í skauti

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, tók í sama streng og Ásgeir í  ræðu á aðalfundi SA í gær. Hann sagði að fyrirtæki ættu erfitt með að standa við launahækkanir lífskjarasamningsins, og gagnrýndi að engin samstaða væri um það í verkalýðsforystunni að taka mið af aðstæðum. Launafólk yrði fyrst og fremst fyrir tjóni vegna þess.

Drífa segir launafólk nú þegar axla ábyrgð á ástandinu.

„Á síðasta ári voru gerðir mjög hófsamir samningar. Þetta voru ekki stóru samningarnir sem voru gerðir þá. Hluti af þeim samningum voru að ef það yrði hagvöxtur, þá myndu koma til ákveðnar launahækkanir, á móti voru lægri krónutöluhækkanir, þannig að launafólk er í raun að taka skellinn í gegnum sína kjarasamninga sem eru í gildi nú þegar," segir Drífa.

Seðlabankastjóri vildi ekki tjá sig um deilu Flugfreyjufélagsins og Icelandair í dag. Enn hefur ekki verið boðað til fundar hjá ríkissáttasemjara til að reyna að finna lausn á henni. Þrátt fyrir það ætlar Icelandair að halda hluthafafund á morgun og reyna að afla 30 milljarða í nýtt hlutafé.

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV