WHO ræður frá notkun á malaríulyfi gegn COVID-19

Mynd: AP / AP
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ræður fólki frá því að nota malaríulyfið hydroxychloroquine gegn COVID-19. Ekki hafi verið sýnt fram á gagnsemi lyfsins í meðferð sjúkdómsins eða til að fyrirbyggja smit.

Donald Trump forseti Bandaríkjanna greindi frá því á mánudag að hann hefði tekið hydroxychloroquine um tíma. Hann hefur talað fyrir notkun lyfsins á blaðamannafundum í Hvíta húsinu. Óttast hefur verið að þessar upplýsingar eigi eftir að verða til þess að fjöldi Bandaríkjamanna verði sér úti um lyfið mögulega með banvænum afleiðingum. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að 106 þúsund tilfelli hafi verið tilkynnt til WHO síðasta sólarhring. Frá því heimsfaraldurinn hófst hafi aldrei jafn mörg tilfelli verið tilkynnt á einum sólarhring. Tveir þriðju hlutar tilfellanna sé í fjórum ríkjum. 

Dr Michael Ryan, framkvæmdastjóri neyðaráætlunar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir að hvorki  hafi verið sýnt fram á gagnsemi hydroxychloroquine né chloroquine til þess að koma í veg fyrir smit. „Reyndar er það á hinn veginn. Yfirvöld hafi víða varað við mögulegum aukaáhrifum lyfsins og mörg lönd hafa takmarkað notkun þeirra við klínískar rannsóknir eða inni á sjúkrahúsum undir eftirliti lækna.“  

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ráðleggur því að við meðhöndlun COVID-19 verði lyfið aðeins notað við klínískar rannsóknir.