Vilja leiðrétta rangfærslur vegna kæru Pipar/TBWA

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkiskaup telja ástæðu til að leiðrétta „endurteknar rangfærslur“ í fjölmiðlaumfjöllunum um útboðið á verkefninu „Ísland- saman í sókn“. Útboðið var til umfjöllunar víða í dag. Auglýsingastofan Pipar/TBWA sendi frá sér yfirlýsingu í dag og greindi frá þeirri ákvörðun stofunnar að kæra Ríkiskaup til kærunefndar útboðsmála fyrir að ganga að tilboði bresku auglýsingastofunnar M&C Saatchi í markaðsátak stjórnvalda til landkynningar á Íslandi í kjölfar COVID-19.

Fara fram á að ákvörðunin veðri felld úr gildi

Ríkið ver einum og hálfum milljarði í markaðsátakið. Tilkynnt var í síðustu viku að M&C Saatchi í samstarfi við íslensku auglýsingastofuna Peel hefði hlotið hæstu einkunn valnefndar og orðið hlutskörpust. Pipar/TBWA var í öðru sæti en litlu munaði á stofunum tveimur.

 Í kærunni fer Pipar fram á að Ríkiskaup stöðvi fyrirhugaða samningsgerð sína við bresku stofuna á meðan kærunefnd tekur kæruna fyrir. Sömuleiðis er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og gengið verði að tilboði Pipar/TBWA.

Pipar telur að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup. Fyrirtækið M&C Saatchi sé til rannsóknar vegna fjármálamisferlis í Bretlandi og samkvæmt lögum hefði átt að útiloka fyrirtækið í útboðinu. Þá sé fyrirtækið ekki virðisaukaskattskylt á Íslandi líkt og íslenskar stofur sem skekki samkeppnisstöðu.

Í tilkynningu Ríkiskaupa segir að vegið hafi verið alvarlega að heiðri dómnefndar „með efasemdum um val í nefndina, heilindi hennar og skort á upplýsingum um bjóðendur fyrir matið á faglegum hluta útboðsins,“ í fjölmiðlaumfjöllun. Virðisaukaskattur sé hlutlaus og hafi ekki áhrif á verðmyndun í útboðum, hvort sem hún er keypt innan- eða utanlands. Staðhæfingar um annað séu byggðar á misskilningi.

Breska stofan hafi staðist allar hæfiskröfur útboðsgagna og lagt fram gögn því til staðfestingar. Tilboð í útboðinu séu valin út frá fyrirframgefnum valforsendum og hæfiskröfum í samræmi við íslensk lög. „Ríkiskaupum ber skylda til þess að staðfesta að útilokunarástæður 68. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 eigi ekki við um fyrirtækið áður en endanlegur samningur er gerður. Lögin heimila ekki að ákvarðanir um val á bjóðendum byggi á fréttaflutningi heldur á staðreyndum og staðfestingum opinberra aðila um að bjóðandinn uppfylli hæfiskröfurnar.“

Tilhæfulausar staðhæfingar um nefndarmann

Þá segir í tilkynningunni að fulltrúar Pipar/TBWA hafi vegið að heiðri dómnefndarinnar í viðtölum við fjölmiðla þar sem ónefndur nefndarmaður hafi verið ásakaður um tengsl við M&C Saatchi. Gefið sé í skyn að nefndarmaðurinn hafi þess vegna gefið Pipar/TBWA lægri einkunn sem hafi ráðið endanlegum úrslitum. Sú staðhæfing sé algjörlega tilhæfulaus.

„Þá hefur nefndur viðmælandi haldið því fram að ef dómnefndin hefði vitað af fyrrnefndri fjölmiðlaumfjöllun um meint brot M&C Saatchi hefði það haft áhrif á einkunnagjöf nefndarinnar. Hlutverk hennar var eingöngu að leggja faglegt mat á kynningar bjóðenda á grundvelli fyrirliggjandi valforsenda. Óheimilt er með öllu að víkja frá því. Slíkt hefði brotið gegn fjölmörgum meginreglum laga um opinber innkaup.“

Hlutverk Ríkiskaupa sé að gæta þess að kaupendur fylgi ákvæðum laga um opinber innkaup. Markmið laganna sé að tryggja jafnræði fyrirtækja og stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni. Í þessu útboði hafi öllum þeim markmiðum verið fylgt.

Hér má lesa tilkynningu Ríkiskaupa í heild sinni.