Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi

20.05.2020 - 15:11
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Bæjarstjórnin á Akureyri hefur samþykkt að leggja til við sjávarútvegsráðherra að Eyjafjörður verði friðaður þannig að sjókvíaeldi verði ekki leyft. Forseti bæjarstjórnar sat hjá og vill láta gera strandsvæðisskipulag.

Tillagan var samþykkt í gær með sjö atkvæðum af ellefu. Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði tillöguna fram og segir að í ljósi umræðu um aukið fiskeldi hafi hann talið nauðsynlegt að taka skýra afstöðu. 

„Hér sést víða yfir fjörðinn og ég tel bara vera mikla sjónmengun af þessu fyrir utan það að ég myndi aldrei samþykkja netsjókvíaeldi því óöryggið hvað það varðar er bara svo mikið,“ segir Gunnar.

Í firðinum sé mikið um ferðamenn, svo sem hvalaskoðun og skemmtiferðaskip og það verði að velja og hafna. Það sé ekki hægt að gera allt heldur þurfi að forgangsraða gagnvart atvinnulífi og þjónustu.

Í bókun bæjarstjórnar segir að með því að friða fjörðinn svo ekki megi stunda sjókvíaeldi, líkt og gert hefur verið með Húnaflóa, Skagafjörð, Skjálfanda, Þistilfjörð, Bakkaflóa, Vopnafjörð og Héraðsflóa verði meiri hagsmunum ekki fórnað fyrir minni og hvatt til uppbyggingar á fiskeldi á landi.

Fjórir vilja stíga varlega til jarðar

Fjórir sátu hjá og lögðu fram aðra tillögu þar sem segir að nauðsynlegt sé að stíga varlega til jarðar og gaumgæfa allar hliðar málsins áður en ákvarðanir um fiskeldi séu teknar.

Þeirra á meðal er Halla Björk Reynisdóttir hjá L-listanum, forseti bæjarstjórnar. Hún telur ekki rétt að ganga svo langt að friða fjörðinn. Hún vilji fara varlega en ekki útiloka eldi í firðinum. Hún segir lykilatriði að það verði haft samráð við sveitarfélög, að farið verði í gerð strandsvæðisskipulags í öllum firðinum og að engin leyfisveiting verði veitt fyrr en slíkt liggur fyrir.