Veirufaraldur og loðnubrestur hafa mikil áhrif á Brim

20.05.2020 - 17:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hagnaður Brims, sem áður hét HB Grandi, var rúmlega 60 milljónir á fyrsta fjórðungi ársins. Kórónuveirufaraldurinn og aflabrestur í loðnu hefur veruleg áhrif rekstur fyrirtækisins. Á sama tímabili voru tekjur fyrirtækisins 10,5 milljarðar króna, og rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta, svokölluð EBITDA, var 1,1 milljarðar.

„Afkoma Brims á fyrsta ársfjórðungi 2020 markast nokkuð af erfiðu tíðarfari og þar með gæftum í upphafi árs með nokkuð lakari afla og þar með afkomu, einkum í veiðum og vinnslu uppsjávarafla. Loðnubrestur annað árið í röð veldur einnig nokkru um afkomu fjórðungsins,“ segir Kristján Þ. Davíðsson stjórnarformaður Brims. 

Kristján segir félagið njóta góðst af fjárfestingum undanfarinna missera, bæði í Ögurvík og sölufélögunum í Asíu. „Þrátt fyrir að verð sjávarafurða hafi almennt verið tiltölulega góð í upphafi árs eru horfur á mörkuðum óvissar vegna áhrifa heimsfaraldursins á neyslumynstur, sölu og flutninga,” segir hann. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV