Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ungverjar banna breytingar á kynskráningu

20.05.2020 - 04:53
epa08423762 Hungarian Prime Minister Viktor Orban speaks during a press conference with Serbian President Aleksandar Vucic (not pictured) following their meeting in Belgrade, Serbia, 15 May 2020. Orban is on an official state visit to Serbia.  EPA-EFE/ANDREJ CUKIC
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lög sem banna breytingu á skráningu kyns voru samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á ungverska þinginu í gær. Samkvæmt lögunum verður ekki hægt að breyta skráðu kyni til samræmis við kynvitund heldur á það kyn sem skráð er á fæðingarvottorð alltaf að vera í gildi. Réttindahópar óttast að fordómar gagnvart hinsegin fólki eigi eftir að aukast eftir samþykkt laganna. Stjórnarandstöðuþingmenn sögðu lögin einfaldlega ill.

Stjórnvöld, með Viktor Orban í fararbroddi, segja að lögin komi í veg fyrir lagalega óvissu. Fréttastofa BBC hefur eftir upplýsingafulltrúa stjórnvalda að skráning kyns í fæðingarvottorði hafi engin áhrif á rétt karla og kvenna til þess að skapa eigin ímynd. Öllum umsóknum síðustu þriggja ára um lögformlega breytingu á kynskráningu verður hafnað samkvæmt nýju lögunum. 

BBC hefur eftir Tinu Korlos Orban, varaformanni þrýstihóps transfólks í Ungverjalandi, að orð fái ekki lýst líðan þeirra eftir að lögin voru samþykkt. Fólk sem hefur ekki verið í sjálfsvígshugleiðingum áratugum saman sé nú byrjað að íhuga það aftur. Hún segir að fólk vilji flýja frá Ungverjalandi til landa þar sem kyn þess er viðurkennt. 

Réttindahópar ætla að reyna að þrýsta á Janos Ader forseta landsins um að undirrita ekki lögin. Það gæti þó reynst erfitt, því Ader er flokksbróðir Viktors Orbans forsætisráðherra í Fidesz-flokknum.