Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tjón Ísafjarðar vegna snjóflóða um 40 milljónir

20.05.2020 - 14:26
Mynd með færslu
Frá vettvangi snjóflóða á Flateyri um miðjan janúar.  Mynd: Önundur Pálsson - Aðsend mynd
Tjón Ísafjarðarbæjar vegna snjóflóðanna sem féllu á Flateyri 14. janúar síðastliðinn nemur um 40 milljónum króna. Bærinn hefur farið fram á það við ríkið að það greiði þennan kostnað og bíður nú svara.  Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að mestur hluti kostnaðins sé tilkominn vegna hreinsunarstarfs.

Annað tjón hefur verið metið á um 24 milljónir króna. 

Birgir segir að bærinn hafi þegar lagt út fyrir hluta kostnaðarins við tjónið. Enn sé verið að hreinsa eftir flóðin. Þegar snjó fór að taka upp hafi komið í ljós að þeim hafi fylgt gríðarlega mikill aur og grjót. Þá hafi fallið til kostnaður vegna ýmissa viðbragðsaðgerða, vélavinnu, snjómoksturs og hýsingar á viðbragðsaðilum.

Hann segir að ríkið hafi farið fram á það við bæinn að taka saman kostnaðinn við snjóflóðið og yfirlit hafi nú verið sent forsætisráðuneytinu. 

„Við viljum nú meina að ríkið ætli að axla þennan kostnað. Við bindum vonir við að við fáum þetta bætt,“ segir Birgir og segist ekki hafa trú á öðru en að það gangi eftir.

Þessu til viðbótar hefur bærinn tekið saman kostnað fyrirtækja og einstaklinga sem urðu fyrir tjóni vegna flóðsins. „Kostnaðarmat á því tjóni er um 24 miljónir. Það er þá tjón sem einhverra hluta vegna hefur ekki verið bætt af tryggingum. Það er bæði tjón á lausamunum og öðru,“ segir Birgir.