Telur að fall Icelandair hefði lítil skammtímaáhrif

20.05.2020 - 20:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Seðlabankastjóri telur að það hefði ekki mikil áhrif til skamms tíma ef Icelandair færi í þrot. En það gæti haft þau áhrif að hagkerfið tæki seinna við sér en ella eftir COVID-19 faraldurinn. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í Kastljósinu í kvöld. Ástæðan er sú að Seðlabankinn gerir nú þegar ráð fyrir því að það komi ekki margir ferðamenn til landsins á árinu. 

Staða Icelandair er ákaflega erfið þessa dagana. Félagið áformar hlutabréfaútboð í júní. Boðað hefur verið til hluthafafundar á föstudaginn og hafði fyrirtækið sett sér markmið um að ná langtímasamningum við helstu starfsstéttir fyrir þann tíma. Upp úr slitnaði í kjaraviðræðum við flugfreyjur í dag og því horfir ekki vel með áform um fjárhagslega endurskipulagningu. 

„Icelandair hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki. Flugfélag sem er mjög rótgróið og þess vegna hefur ríkissjóður verið til í að leggja einhverja peninga inn í flugfélagið til að halda því uppi, eins og hefur þekkst erlendis,“ segir Ásgeir. 

Seðlabankastjóri segir að þegar litið er fram á við myndu koma önnur flugfélög sem myndu leysa Icelandair af hólmi. Þekkingin á flugrekstri sé til staðar í samfélaginu.