Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telja þörf á enn frekari lækkun stýrivaxta

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Samtök iðnaðarins telja að samdrátturinn í efnahagslífinu verði meiri en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir. Stýrivaxtalækkun bankans í morgun er skref í rétta átt en þörf er á enn frekari lækkun að sögn samtakanna.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 0,75 prósentustig. Meginvextir bankans verða því eitt prósent og hafa aldrei verið lægri. Bankinn spáði 8% samdrætti í ár, en verstu spár hafa gert ráð fyrir allt að 13% samdrætti.

SI segir að óvissan í efnahagsspám skýri þann mun sem þar kemur fram, en að Seðlabankinn byggi á talsvert bjartsýnum forsendum um samdrátt í fjárfestingu einkaaðila á þessu ári.

„Að mati SI eru því líkur á því að samdrátturinn verði meiri í ár en bankinn spáir. Í því ljósi er þörf á enn frekari lækkun stýrivaxta,” segir í tilkynningu SI.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV