Telja of lítið gert til að bregðast við Klaustur-málinu

20.05.2020 - 09:49
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Það ofbeldi og sú áreitni sem þingmenn og starfsmenn þingsins verða fyrir er ekki ásættanlegt segja tveir þingmenn. Athyglisvert sé að fólk veigri sér við að tilkynna þinginu um slíka hegðun og brot. Alþingi birti í gær skýrslu þar sem fram kom að stór hluti þingmanna og starfsmanna þingsins hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða áreitni.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að henni hafi fyrst orðið hugsað til starfsmanna þingsins og þingflokka sem yrðu fyrir slíku. „Þegar ég var búin að vera þar svolítið og vera svolítið sjokkeruð yfir því hvernig þeim liði þá hugsaði ég: Vá hvað maður er orðinn eitthvað bilaður þegar maður gerir ráð fyrir því að þingmenn verði fyrir allskonar, bæði kynferðislegu áreiti, einelti, ofbeldi, öskum, ýtingum, hrindingum, en maður verður sjokkeraður yfir öðru starfsfólki.“

Aðstandendur verða fyrir aðkasti

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, talaði um hvernig komið væri fram við þingmenn og aðstandendur þeirra. „Maður er auðvitað hugsi yfir því að þingmenn hafi jafnvel upplifað að fólkið þess hafi orðið fyrir einhvers konar ofbeldi eða erfiðleikum í vinnunni sinni, af því að maður er þingmaður. Það er auðvitað líka óásættanlegt að fjölskyldan lendi einhvern veginn í því.“

„Lýsingarnar sem eru þarna eru alveg fáránlegar, þar sem fólk er beinlínis með líkamlegt ofbeldi, og ofsalega selektívt. Það er valið hver verður fyrir því,“ sagði Helga Vala um einelti, ofbeldi og áreitni innan þings. Bjarkey tók undir með henni. „Ég held að það sé líka þetta ójafnvægi hvort þú sért þingmaður að takast á við þingmann, eða hvort þú sért starfsmaður þingflokks sem hugsanlega verður fyrir áreiti þingmanns, kynferðislegu eða annars konar, eða starfsmaður Alþingis sem verður fyrir einhverju slíku af hálfu þingmanns. Það er þetta ójafnvægi á milli aðila.“

Fáar tilkynningar

Bjarkey og Helga Vala sögðu í Morgunútvarpinu á Rás 2 að það væri athyglisvert hversu fáar tilkynningar bærust þinginu um áreitni og einelti. Þær sögðu að taka yrði á þessu og að of lítið hefði verið gert til að bregðast við Klausturmálinu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi