Tæplega sex hundruð þvingaðir á sjúkrahús á tíu árum

20.05.2020 - 11:00
Mynd: Gesine Kuhlmann / RGBStock
Fimm hundruð sjötíu og níu manns voru lagðir inn á sjúkarhús gegn vilja sínum hér á landi á síðastliðnum tíu árum. Fram til 2014 voru innan við tuttugu tilfelli á ári en þegar mest var fyrir tveimur árum voru 137 þvingaðir til sjúkrahúsvistar. Sveinn Rúnar Hauksson læknir vill að hætt verði að þvinga fólk til sjúkrahússvistar eða lyfjatöku. Hann var fulltrúi Geðhjálpar í starfshópi heilbrigðisráðherra um þvingaða meðferð sem nýlega skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra.

Knýjandi þörf fyrir nýjar reglur

Starfshópurinn sem Sveinn sat í tók fyrir tuttugustu og áttundu grein lögræðislaganna þar sem fjallað er um þvingaða lyfjameðferð sjúklinga. Hópurinn skilaði af sér núna13. maí og eru helstu niðurstöður hans þær að knýjandi þörf sé á reglum sem kveða skýrt á um hvers konar þvinganir eru heimilar í meðferð sjúklinga. 

Allir hafa sjálfsákvörðunarrétt samkvæmt lögum og geta þegið eða hafnað meðferð að vild. Í 28. grein lögræðislaganna sem starfshópurinn tók fyrir er læknum veitt leyfi til að þvinga þann sem hefur verið vistaður nauðugur á sjúkrahúsi til að taka lyf; sæta þvingaðri lyfjagjöf eins og það er orðað.   

Óttast að ákvæðið sé misnotað

Sveinn Rúnar segir að það þekki þetta enginn nema sá sem lendir í því að verða fyrir þvingunum „og jafnvel grímulausu ofbeldi eins og fólk getur orðið fyrir þegar það er að leggjast inn á geðdeild. Það er þannig að í núgildandi lögum, lögræðislögum, er ein grein, 28. greinin, og hún er ákaflega vanbúin og litlar útskýringar. Þó er eitt aðalatriði í henni, að það megi ekki beita svokallaðri þvingaðri lyfjagjöf þ.e.a.s sprauta lyfjum í fólk með valdi öðruvísi en að um sé að ræða lífshættulegt ástand, að viðkomandi sé hættulegur, í raun hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Ég er óskaplega hræddur um að þetta hafi verið misnotað óskaplega lengi þetta ákvæði og þessu hafi verið beitt miklu miklu meira en lögin gera ráð fyrir. Og þá er ég alls ekki að gagnrýna lækna eða starfsfólk á geðdeildunum þar eru allir að reyna að gera sitt besta. En þegar fólk hefur svona vald yfir öðru fólki þá er alltaf hætta á misnotkun. 

Grafalvarlegt mál

Ég segi fyrir mína parta það er nú orðið ansi langt um liðið. Ég varð fyrir þessu og er alveg sannfærður um það, ég held að ekki sé hægt að finna neinn þann mann sem færi að halda öðru fram, að ég var aldrei hættulegur hvorki sjálfum mér né öðrum. Ég hafði aldrei einu sinni hugsað um sjálfsvíg og ég hafði aldrei svo mikið sem slegið til nokkurs manns. Þannig að það var ekki um það að ræða. Þetta var svona eins og sá góði læknir sagði sem bar ábyrgðina í síðasta skipti sem þetta henti mig. Það var 1985 það eru nú komin ansi mörg ár síðan. Þetta hefur í rauninni ekki breyst. Hann sagði nefnilega „Já Sveinn minn, ég var nú bara þeirrar skoðunar að það væri best að koma mönnum sem fyrst í svefn og eins bara líka að koma í veg fyrir að þeir færu að skapa óróa á deildinni“  Og þetta eru svona sjónarmið sem eru bara ekki gild. Og þetta er náttúrlega bara hreint lögbrot eins og ráðherra segir þegar hún fylgdi þessu úr hlaði nýlega, þessu áliti starfsópsins, að þetta er grafalvarlegt mál. Svona má ekki gera.“

Vill að hætt verði að þvinga fólk

Starfshópurinn sem Sveinn sat í var fenginn til að útfæra 28 greinina, búa til reglur um hvernig á að beita henni. Ekki hefur verið rannsakað hér á landi hvernig þvinguð meðferð, þvinguð lyfjagjöf, fer fram á sjúkrahúsum né er vitað hve margir hafa orðið fyrir henni. Sveinn vill að gengið sé lengra en að setja bara reglur 

„Þá voru mín fyrstu viðbrögð þau og eru enn þann dag í dag, þó ég standi að þessari skýrslu, að ég vil bara burtu með þessa 28. grein. Raunar eru öll lögræðislögin að mínu mati ólög því þau opna þannig á nauðung, þvinganir og ofbeldi gagnvart einum sjúklingahópi. Það bara stenst ekki og við sættum okkur ekki við það. Og það er svo sem ágætt að geta vitnað líka í mannréttindasáttmála sem styðja mál okkar en við þurfum ekkert á því að halda. Við vitum að svona á ekki að gera. Það verður að finna aðrar leiðir og það er hægt að finna aðrar leiðir.

En hvers vegna var það ekki gert núna?  
Kannski er ástæðan sú að það er starfandi eða nýkomin nefnd sem var sett á laggirnar á Alþingi undir formennsku Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur með fulltrúum úr öllum flokkum og þessari nefnd er ætlað að endurskoða alla þessa löggjöf. Þessum starfshópi sem ég var í var einungis ætlað að skoða þessa 28 grein. Það var ekki á okkar valdi í sjálfu sér, og heldur ekki ráðherra, að breyta henni. Hún er í lögunum og það er Alþingi sem verður að breyta þeim.“ 

Nýjar reglur til bóta

Sveinn Rúnar undirstrikar að hann vilji leggja 28. greinina niður en segir að ef tillögur starfshópsins verði að veruleika séu þær til bóta. Lagt er til í tillögunum að einn læknir geti ekki lengur tekið ákvörðun um að sprauta lyfjum með valdi í sjúkling heldur yrðu þeir að vera tveir og annar þeirra utan stofnunarinnar. Einnig er betur gætt að sjálfsákvörðunarréttinum og sjúklingur getur sett reglur um það hvernig eigi að meðhöndla hann ef hann missti hæfni til að taka ákvarðanir. Hann getur líka valið sér trúnaðar- og umboðsmenn o.m.fl.  

Fleiri en áður þvingaðir til sjúkrahúsvistar 

Ekki eru til tölur um það hve margir eru þvingaðir í meðferð á sjúkrahúsi en það eru til tölur um hve margir hafa verið lagðir inn gegn vilja sínum. Á tíu ára tímabili, frá 2009 til 2019 voru 579 vistaðir nauðugir á sjúkrahúsi. Árið 2009 voru þeir 14 og fram til 2014 innan við 20 á hverju ári. Eftir það fjölgar þeim verulega og eru árið 2018 eða 137.  Í fyrra 2019, voru 66 vistaðir nauðugir á sjúkrahúsi. 

Sveinn segir að það sé áhugavert hvað þessar sjálfræðissviptingar og nauðungarvistanir eru mismargar.  En hvað á að gera, hvað á starfsfólk sjúkrahúsa að gera?

„Það fyrsta er náttúrlega að við verðum að vita hvað við viljum ekki og hvað við sættum okkur ekki við. Það er þetta ástand eins og er núna, það eru þessar þvinganir og jafnvel ofbeldi gagnvart sjúklingum. Það hefur farið fram meira og minna eftirlitslaust. Það hefur ekkert verið skráð sérstaklega um þessa þvinguðu lyfjagjöf fyrr en núna. Það er verið reyna að bæta úr því en það er ekkert sem gerir ráð fyrir því í núverandi lögum. En það er nú eitt sem breytist með tilkomu þessara tillagna ef þær verða að veruleika. 
Ég nefndi þarna þetta með að skrifa reglur fyrirfram um eign meðferð, fá trúnaðarmann.“ 

Varnarteymi eða árásarteymi

„Kannski eitt stærsta málið sem kemur fram í tillögunum er að mínu mati svokallað sérfræðiteymi þar sem gert er ráð fyrir því að geðlæknir, lögfræðingur og aðstandandi séu í slíku teymi ásamt þremur notendum geðheilbrigðisþjónustunnar og þá fólk sem hefur reynslu af þessu. Við skulum bara vona að það verði æ erfiðara að finna slíkt fólk í framtíðinni sem hefur reynslu af þvingaðri lyfjameðferð það er svo sem enginn vandi að finna það núna.“   

Sveinn rifjar upp samtal sem hann átti við við geðlækni fyrir nokkrum árum. Sá hafði unnið í áratugi á geðdeildum sjúkrahúsanna. Á öllum hans starfstíma hafði hann einungis tvisvar þurft að kalla út hið svokallað varnarteymi.

„Hjá okkur heitir þetta nú frekar árásarteymi því þetta er hópurinn sem kallaður er til til að taka menn með valdi.  
Í hvaða starfstétt eru þeir? Það eru bara venjulegir almennir starfsmenn á deildum sem eru kallaðir til. Það hafa nú orðið framfarir á þessu sviði á þann hátt að þetta voru 7 manns hér í gamla daga en núna eru þeir bara fjórir því þeir eru svo vel þjálfaðir það þarf ekki meira. 
Ég ætla bara að klára þetta með þessa sögu af vini mínum geðlækninum sem hafði bara þurft að nota þetta í tvígang á allri sinni starfsævi. Og þegar hann fór að skoða málið þá var það þannig að í bæði skiptin var það hann sjálfur sem var bara orðinn svo þreyttur í lok vaktar að hann hafði ekki orku til að takast á við sjúklinginn þ.e.a.s í samtali og tala við hann eins og þurfti. Og þá var auðveldara að kalla það til því hann var bara sjálfur að gefast upp.

Bindur vonir við starf þingnefndar

Sveinn segir að Svandis Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi tekið tillögum hópsins mjög vel. Hún hafi sett hópinn á laggirnar og vilji sé til breytinga. Hann bindur vonir við að með haustinu setji ráðherra reglugerð í anda tillagna hópsins. Hann bindur líka vonir við starf Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur alþingismanns og nefndarinnar sem er að endurskoða lögræðislögin. 

“Og hún vann nú á sínum tíma einmitt að þessum málum fyrir Geðhjálp en núna er hún á Alþingi og er formaður nefndar sem ætlar sér að taka þessi lögræðislög í gegn og færa okkur fram mót þeirri tíð, sem hlýtur að koma, þar sem réttur þeirra sem eiga við geðraskanir;  en nú heitir þetta víst geðrænar áskoranir fyrirgefðu, ekki má maður nú fara að tala um geðsjúkdóma eins og ég gerði óvart hér áðan. Ég ætlaði bara að segja að við hljótum að eiga þá framtíð að það verði hvarvetna gætt fullra mannréttinda gagnvart þessum hópi rétt eins og öðrum.  

Leggur til þvingunarlaus ár á Íslandi

Og ég held líka að Ísland, við höfum svo gaman af því að tala um hvað við erum merkileg og sérstök, við höfum staðið okkur bara býsna vel í mörgum málum sem snúa að mannréttindum og jafnrétti. Mér er ofarlega í huga staða kvenna. Við stöndum tiltölulega vel þar og höfum farið alla vega fram úr öðrum í þeim málum og eins varðandi réttindi samkynhneigðra og hinsegin fólks. Hvernig væri nú að við tækjum okkur saman og gerðum næstu árin að þvingunarlausum árum á Íslandi gagnvart geðsjúkum. Það var góður félagi minn sem ýtti þessari tillögu að mér bara núna. Það mætti til dæmis taka tvö til þrjú ár. Ráðherra gæti gert þetta, sett í undirbúning verkefni um að  tvö þrjú næstu árin á Íslandi væri tilraunaverkefni um þvinganalausa geðheilbrigðisþjónustu.“

Sagt er frá vinnu hópsins á vef stjórnarráðsinsDrög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð hefur veið birt í samráðsgátt stjórnvalda.  

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi