Snýst ekki bara um að sitja við tölvu og forrita

Mynd: Stelpur í tækni / Stelpur í tækni

Snýst ekki bara um að sitja við tölvu og forrita

20.05.2020 - 16:53
Verkefnið Stelpur í tækni var haldið í sjöunda skipti í dag. Það er Háskólinn í Reykjavík sem stendur að verkefninu sem er ætlað að hvetja konur til náms og starfs í tæknigreinum. Ný rannsókn á verkefninu sýnir að dregið hefur úr neikvæðum staðalímyndum og áhugi á tækninámi og störfum hefur aukist hjá þeim sem tekið hafa þátt.

Verkefnið fór í ár fram með öðruvísi hætti en venjulega í ljósi aðstæðna var ekki hægt að bjóða stelpum í 9. bekk í skólann og fyrirtæki. Viðburðurinn var því rafrænn og var streymt í 50 skóla víðs vegar um landið. Margrét Þóroddsdóttir og Þórunn Hilda Jónasdóttir eru verkefnastjórar viðburðarins en þær segja daginn hafa gengið vonum framar. „Kjánalega var að við höfum ekki fattað það fyrr að vera með svona streymisvinnustofur en nú gátum við boðið öllu landinu að taka þátt en ekki bara höfuðborgarsvæðinu. Þannig það er örugglega komið til að vera,“ segir Þórunn.

„Stelpurnar fá á viðburðinum að kynnast tækninni frá mörgum hliðum enda snýst þetta ekki bara um að sitja við tölvu og forrita,“ bætir hún við. 

Þátttakan hefur aukist með árunum en fyrsta árið sem Þórunn og Margrét voru verkefnastjórar tóku 175 stelpur þátt en í fyrra voru þær 900. Það er því ljóst að áhuginn er til staðar en þrátt fyrir að stelpurnar ættu nú að vera farnar að skila sér í háskólana þá er hlutfall kvenna í tæknitengdu námi þar enn bara í kringum 30%. „Það eru alltaf stærri hópar sem eru að koma hingað þannig að það er óskandi að við förum að sjá þessar tölur í umsóknarfjölda,“ segir Margrét. 

Einhver virðist árangurinn þó vera en í nýrri ritgerð sem Hildur Björg Vilhjálmsdóttir skrifaði um árangur og upplifun stúlkna af Stelpur og tækni kemur meðal annars fram að dregið hefur úr neikvæðum staðalímyndum hjá þeim sem hafa tekið þátt í verkefninu, áhugi þeirra hefur aukist og þær hafi aukna trú á eigin getu á því að til dæmis forrita og vinna með rafmagn. „Þetta virðist því vera að skila árangri og það eru vísbendingar um að þetta hafi langtímaáhrif. Stelpurnar séu að endurskoða val um nám í framhaldsskóla og hafi skýrari hugmyndir um störf á þessu sviði,“ segir Hildur. 

Rætt var við Margréti, Þórunni og Hildi í Síðdegisútvarpinu í dag. Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.