Segir tvískinnung að heimila neyslurými en banna efnin

20.05.2020 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er hugsi yfir frumvarpi heilbrigðisráðherra um opnun neyslurýma. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi í dag með 42 atkvæðum gegn tveimur.

Með samþykkt frumvarpsins  yrði sveitarfélögum heimilt að opna neyslurými, þar sem einstaklingar, 18 ára og eldri, geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti starfsfólks þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Rauði kross Íslands rekur nú þegar slíkt úrræði undir heitinu Frú Ragnheiður.

Fyrst verði að heimila vörslu efna

Brynjar segir að áður en heimilt sé að opna neyslurými verði fyrst að heimila með lögum vörslu efnanna. Það sé mjög mótsagnarkennt að búa til rými fyrir neyslu á ólöglegum efnum.  

„Einhver myndi segja að þetta væri öfugsnúið. Að við værum að stuðla að neyslu á ólöglegum efnum. Í mínum huga gengur þetta ekki upp,“ sagði Brynjar. „Ég er hugsi yfir því að við séum að búa til svæði þar sem við ætum að taka landslögin úr gildi og heimila eitthvað sem alla jafna er ekki heimilt,“ bætti hann við.

Skapi vandræði fyrir löggæsluaðila

Brynjar tók fram að hann trúi því ekki að refsingar muni laga nokkurra fíkn og hann hafi aldrei trúað því. „Ef við ætlum í þetta þá verðum við að byrja á því að segja að vörslur á einhverju magni er bara refsilaust,“ segir hann. Hann sagðist telja að ef veita ætti heimild fyrir opnun neyslurýma án þess að heimila vörslu efnanna myndi það skapa vandamál, meðal annars fyrir löggæsluaðila.

„Ástæðan fyrir því að ég hef efasemdir um þetta frumvarp og mun ekki styðja það er að ég tel það ekki vera til gagns og jafnvel til ógagns,“ sagði Brynjar og furðaði sig á því hversu mikil áhersla er lögð á þetta mál. 

 

 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV