Segir ekki ljóst hvaða „aðrar leiðir“ verði skoðaðar

20.05.2020 - 18:35
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að skoða verði aðrar leiðir í kjaraviðræðum við flugfreyjur, en ekki sé ljóst hvaða leiðir það séu. Félagið gerði flugfreyjum lokatilboð í dag sem var hafnað. Bogi segir að gjáin á milli félaganna hafi verið of djúp og breið til að hægt væri að halda viðræðum áfram.

Ósammála því að tilboðið sé endurnýtt

Guðlaug Líneu Jóhannsdóttir, starfandi formaður Flugfreyjufélagsins, segir að tilboðið hafi verið sett fram sem afarkostir og segist ekki skilja hvað Bogi eigi við þegar hann tali um að leita þurfi annarra leiða. Flugfreyjur séu áfram tilbúnar til viðræðna.

Flugfreyjur hafa sagt að félagið hafi endurnýtt eldri tilboð. Því segist Bogi ekki sammála. Töluverðar breytingar hafi verið frá fyrri tilboðum, meðal annars auknar launahækkanir á grunnlaun. Það hafi verið skýrt í samningaviðræðum við bæði flugfreyjur, flugmenn og flugvirkja að félagið þyrfti að ná fram auknu vinnuframlagi og auknum sveigjanleika. „Og við erum búin að ná fram samningum við tvær stéttir af þremur hvað varðar flugáhafnir og okkar flugfólk og við þurfum að ná því sama fram gagnvart flugfreyjum og flugþjónum til þess að geta talist samkeppnishæf til framtíðar. En því miður erum við enn þá á þessum stað.“

Segist áfram bjartsýnn á að ná lendingu

Í tilkynningu sem send var á fjölmiðla eftir að sáttafundi lauk fyrr í dag sagði Bogi að nú þyrfti að skoða „aðrar leiðir“ í samningaviðræðunum. „Við erum búin að vera að fókusera á þessar viðræður og ganga frá samningum og við vitum í raun ekkert á þessu stigi hvaða leiðir það eru en við ætlum að bjarga þessu fyrirtæki og það er okkar hlutverk.“

Félagið vonist enn til að ná lendingu með sínu samstarfsfólki. „Við teljum algjörlega að miðað við þetta lokatilboð þá sé verið að bjóða áfram upp á frábær starfskjör fyrir flugþjóna og flugfreyjur, með því besta sem gerist á Vesturlöndum,  en á sama tíma að tryggja samkeppnishæfni og sveigjanleika fyrirtækisins. Þannig að ég leyfi mér enn þá að vera bjartsýnn á að við náum lendingu í þessu máli. “

Hann reiknar þó ekki með að það gerist fyrir föstudaginn þegar hluthafafundur félagsins verður haldinn. Icelandair lagði mikla áherslu á að ná langtímasamningi fyrir fundinn þar sem afstaða verður tekin til hlutafjáraukningar.