Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neyðarstigi aflétt á mánudag

20.05.2020 - 14:32
Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ� / Aðsend mynd
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir að fimm smit hafi greinst í maí af um 7.500 sýnum og það bendi til þess að smit í samfélaginu sé lítið. Einn greindist síðasta sólarhring á höfuðborgarsvæðinu. Virk smit í samfélaginu séu þrjú og viðkomandi séu í einangrun. Neyðarstigi verður aflétt á mánudag.

Næsta aflétting takmarkana verður á mánudaginn, 25. maí, þá verður líka síðasti upplýsingafundur almannavarna.  

Þórólfur greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna að hann sendir heilbrigðisráðherra minnisblað í dag þar sem hann leggi til að fjöldatakmörk verði færð úr 50 í 200 manns. „Íþróttastarf verði leyft með 200 manna hámarksfjölda fyrir fullorðna, líkamsræktarstöðvar opni með ákveðnum takmörkunum, vínveitingastöðum og skemmtistöðum verði leyft að hafa opið til um klukkan 23  og spilasalir megi sömuleiðis hafa opið til 23.“

Þórólfur segir að árangur verði að sjást af breyttum fjöldatakmörkunum hvort og þá hversu mikið verði slakað á aðgerðum næst. 

Áfram verði gerðar sömu kröfur um sótthreinsun og þrif almenningsrýmum og ný skilgreining sett fram á tveggja metra reglunni í ljósi þess að meiri fjöldi má koma saman frá og með næsta mánudegi. 

Verkefnahópur ríkisstjórnarinnar vinnur að útfærslu leiða til að opna landið frekar fyrir ferðamönnum með ákveðnum skilyrðum. Hópurinn á að skila inn tillögum á mánudag og í framhaldi sendir Þórólfur minnisblað til ráðherra um tilslakanir á landamærum. Ekki sé tímabært að ræða það neitt frekar að þessu sinni. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV