Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mega vænta betri lánskjara

Mynd: Rúv.is/Eddi / Rúv.is/Eddi
Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína í morgun í fjórða sinn í ár. Þess er vænst að lækkunin skili sér í betri lánskjörum fyrir fólk og fyrirtæki.

Vextir bankans voru í 1,75 prósentum sem þá var sögulegt lágmark. Eftir lækkunina í dag verða meginvextir bankans eitt prósent. „Verðbólguvæntingar hafa ekki hækkað, krónan er núna tiltölulega stöðug þannig að við getum gert þetta,“ segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.

Hefur áhrif á fjölmörg heimili

Aðgerðin telst bein viðbrögð við áhrifum COVID-faraldursins en Seðlabankinn spáir átta prósenta samdrætti landsframleiðslu í ár og að atvinnuleysi yfir árið verði að meðaltali 9 prósent. Vaxtalækkuninni er ætlað að flýta fyrir efnahagsbata sem bankinn spáir að hefjist á síðari hluta ársins.

Með lækkuninni væntir bankinn þess að vextir á lánum til heimila og fyrirtækja lækki. „Ef þú ert á breytilegum vöxtum þá hefur þetta auðvitað áhrif, ef þú ert á föstum vöxtum þá hefur það í sjálfu sér ekki áhrif. Þannig að þetta fer ofboðslega mikið eftir hvernig lán bæði heimili og fyrirtæki eru með. En fyrir mjög marga mun þetta hafa áhrif,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.

Óverðtryggð lán eftirsótt

Mikil ásókn hefur verið í endurfjármögnun íbúðalána undanfarnar vikur enda vextir lækkað umtalsvert síðustu mánuði. Þannig hefur fólk getað nýtt sér lægri vexti til að auka ráðstöfunartekjur sínar og er mesta ásóknin í óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum.

Sé litið til vaxtakjara stóru viðskiptabankanna eru vextir á óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum á bilinu 4 til 4,2 prósent, verðtryggðir vextir 2,3 til 3,1 prósent og vextir á yfirdráttarlánum eru 9,5 prósent.

Allir bankarnir eru samkvæmt svörum frá þeim í dag að endurskoða sínar vaxtatöflur í ljósi ákvörðunar Seðlabankans. Að öllu óbreyttu ættu þessir vextir að lækka á næstu vikum, enda yfirlýst markmið Seðlabankans að svo verði.

Erfitt að ávaxta pundið

Svo er það hin hliðin á peningnum, því þeir sem eiga sparifé eiga orðið sífellt erfiðara með að ávaxta fé sitt. Þannig eru innlánsvextir á óbundnum reikningum einungis 0,05 til 0,10 prósent. Það borgar sig því alls ekki að eiga pening inni á slíkum reikningi. „Það er kannski ekki um auðugan garð að gresja endilega í þessu árferði. Núna þegar vextir eru að lækka, þetta hefur auðvitað haft gríðarleg áhrif. Það er erfiðara að ná sér í ávöxtun á fjármagninu sínu í dag en það var,“ segir Erna Björg.