Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Joe Rogan gerir milljarða samning við Spotify

Mynd með færslu
 Mynd:

Joe Rogan gerir milljarða samning við Spotify

20.05.2020 - 13:26

Höfundar

Hlaðvarpsstjórnandinn Joe Rogan hefur gert risavaxinn samning við Spotify veituna og hlaðvarpsþættir hans, The Joe Rogan Experience, verða eingöngu aðgengilegir á Spotify. Þættirnir hafa verið á meðal vinsælustu hlaðvarpsþátta veraldar síðustu ár.

Hlaðvarpið er eitt það vinsælasta í heiminum en talið er að samningur Rogan við Spotify hljóði upp á 100 milljónir dollara, en það gera rúmlega 14 milljarða íslenskra króna. Samningurinn tekur gildi 1. september og verða aðeins á Spotify. Um áramótin verða allir þættir eingöngu aðgengilegir á Spotify og hverfa úr öllum veitum sem þá má finna í dag. Rogan segir sjálfur að þættirnir eigi ekki eftir breytast og verða enn þá ókeypis. Í myndbandi sem hann deildi á Instagram tilkynnir hann vistaskiptin og lofar aðdáendum sínum að Spotify komi hvergi að gerð þáttanna. Öll efnistök verði áfram á hans herðum og hann heldur einnig áfram að velja viðmælendur. 

Joe Rogan byrjaði með hlaðvarpið í lok árs 2009 og það varð fljótt vinsælt. Í þættinum fær Rogan til sín földa gesta og í raun eru engin efnistök þættinum óviðkomandi. Hver þáttur er yfirleitt í lengra lagi og ekki óalgengt að þeir séu tvær til þrjár klukkustundir. Fjölmörg viðtöl hafa vakið mikla athygli og miklar umræður hafa skapast um stjórnmálaskoðanir Rogans. Hann var lengi vel dyggur stuðningsmaður Bernies Sanders og Sanders hefur verið gestur hans. Eftir að Joe Biden hlaut tilnefningu Demókrataflokksins segist Rogan hins vegar hafa verið líklegur til að kjósa Donald Trump. 

Þáttur Rogans hefur verið umdeildur og hann verið sakaður um kvenfyrirlitningu og kynþáttafordóma. Þá hefur hann talað opinskátt um fíkniefnaneyslu en sá þáttur sem hefur fengið flest áhorf á YouTube-rás þáttarins er þegar að hann og Elon Musk, eigandi Tesla, reyktu saman jónu í þættinum. 

Samningurinn við Spotify hefur þegar vakið mikla athygli enda um áður óþekktar upphæðir innan hlaðvarpsheimsins. Bent hefur verið á að Rogan fær nú hærri fjárhæðir frá Spotify en flest tónlistarfólk sem er með tónlist sína á veitunni. Tom Gray, sem starfar fyrir hálfgerð hagsmunasamtök tónlistarhöfunda í Bretlandi, benti til dæmis á að það sem Rogan fær frá Spotify jafngildi því að einu lagi sé streymt 26 milljarða sinnum. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ellefu bestu þættir Í ljósi sögunnar