Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Icelandair sagt íhuga að ráða flugfreyjur utan FFÍ

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm
Samningafundur flugfreyja og Icelandair hófst klukkan hálf níu hjá ríkissáttasemjara, en fundi sem áætlað var að halda í gær var frestað. Icelandair íhugar að ráða flugfreyjur sem standa fyrir utan Flugfreyjufélag Íslands, ef ekki nást samningar við stéttarfélagið.

Greint er frá þessu í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í dag. Sett verði á laggirnar nýtt stéttarfélag fyrir þær flugfreyjur sem fylgja Flugfreyjufélaginu ekki að málum, og látið reyna á ákvæði þess efnis fyrir félagsdómi.

Forsvarsmenn Icelandair hafa sagt að kjarasamningar allra flugstéttanna verði að liggja fyrir áður en hluthafafundur verður haldinn á föstudaginn. Þar verður tekin ákvörðun um 30 milljarða króna hlutafjárútboð. Flugfélagið telur sig þurfa að lækka launakostnað um 20 prósent og hefur nú þegar náð samningum við flugmenn og flugvirkja.