Hlutverk sóttvarnalæknis að leggja til ferðatakmarkanir

20.05.2020 - 22:30
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Sóttvarnalæknir segir að það sé skýrt í lögum að ferðatakmarkanir vegna sóttvarna séu ákveðnar að fenginni tillögu embættis sóttvarnalæknis. Hann ætlar að skila inn tillögum um afléttingu ferðatakmarkana til ráðherra eftir að verkefnahópur ráðuneytisins hefur skilað verkáætlun þann 25. maí. Ráðherra segir að fullt samráð verði haft við sóttvarnalækni um afléttingu ferðatakmarkana.

Hugmyndir stýrihópsins í samræmi við hugmyndir sóttvarnalæknis

Ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku áform um afléttingu ferðatakmarkana frá og með 15. júní, samkvæmt tillögu stýrihóps sex ráðuneytisstjóra. Stýrihópurinn átti fundi með sóttvarnalækni, landlækni og fulltrúa almannavarna, en sóttvarnalæknir átti ekki beina aðkomu að vinnu hópsins. Spurður hvers vegna segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að aðrir þurfi að svara því. „Ég held að þú verðir að spyrja hópinn eða þann sem setti saman hópinn eða stjórnaði honum um það en ekki mig,“ segir Þórólfur. „Ég hins vegar hitti hópinn og við ræddum saman og ræddum saman ýmsar hugmyndir og þær hugmyndir sem verkefnahópurinn og teymi ráðuneytisstjóra var með voru þær sömu og ég hef verið að viðra.“ 

Tillögurnar miða að því að ferðamenn sem hingað koma, og vilja ekki fara í sóttkví, fari í veirupróf eða skili inn gildu læknisvottorði. Komið hefur fram gagnrýni af hálfu lækna á þessi áform, en þeir óttast að veiran berist aftur til landsins með ferðamönnum. 

Í skriflegu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn fréttastofu segir að ekki sé við öðru að búast en að skiptar skoðanir séu um svo viðamikið verkefni, sem varði jafnt sóttvarnir, ýmsa innviði samfélagsins og erlend samskipti. Því hafi stýrihópur verið stofnaður til að gera tillögur um næstu skref.

Skilar tillögum um ferðatakmarkanir til ráðherra eftir 25. maí

Nú er að störfum verkefnahópur sem á að útfæra tilslakanirnar nánar. Hann skilar verkáætlun á mánudag. Sóttvarnalæknir og almannavarnir eiga fulltrúa í þeim hópi. Heilbrigðisráðherra segir að fullt samráð verði haft við sóttvarnalækni um afléttingu ferðatakmarkana þegar þar að kemur, eins og hingað til.

Þórólfur segir hlutverk embættis sóttvarnalæknis skýrt í sóttvarnalögum. „Það er nokkuð skýrt í sóttvarnalögum að sóttvarnalæknir kemur með tillögur til ráðherra um setningu takmarkana, annað hvort lokun landamæra eða annars konar takmarkana. Þó það standi ekki beint í lögunum þá er ráð fyrir því gert að sami framgangsmáti sé á þegar þarf að aflétta,“ segir Þórólfur.  

„Verkefnahópurinn er að vinna að þessum tillögum og kemur með niðurstöður sem að ég mun hafa til hliðsjónar, því að ég mun halda áfram að koma með tillögur til heilbrigðisráðherra,“ segir Þórólfur. Það verði svo að koma í ljós hver ákvörðun heilbrigðisráðherra verður eftir það.

En eru einhverjar líkur á því að tillögur hans verði ólíkar niðurstöðu þeirrar hópavinnu sem nú er í gangi? „Það er bara ómögulegt að segja vegna þess að niðurstöður frá verkefnahópnum liggja ekki fyrir,“ segir Þórólfur. Hann segir ljóst að á einhverjum tímapunkti þurfi að opna landið fyrir ferðamönnum og þá skipti máli að takmarka líkur á að veiran komi inn aftur, hvort sem það sé gert núna eða síðar. 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi