Grikkir opna landið fyrir ferðafólki á ný

20.05.2020 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Ferðamannatíminn hefst að nýju í Grikklandi 15. júní. Frá fyrsta júlí verður millilandaflug heimilað að nýju til helstu ferðamannastaða landsins. Heimilt verður að opna flugvelli á Ítalíu eftir næstu mánaðamót.

Kyriakos Mitsotakis forsætisráðherra tilkynnti í sjónvarpsávarpi í dag að hótel á ferðamannastöðum landsins yrðu opnuð um miðjan næsta mánuð. Hann sagði að skimað yrði fyrir kórónuveirunni hjá ferðafólki og allar heilbrigðisreglur hafðar í heiðri án þess þó að þær yrðu látnar skyggja á sumarsólina og náttúrufegurð Grikklands, eins og hann komst að orði.

Mitsotakis sagði að Grikkjum hefði gengið svo vel að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar að þeir væru öðrum þjóðum fyrirmynd. Innan við þrjú þúsund veirusmit hafa greinst í landinu. 166 hafa dáið af völdum COVID-19, þar af einn síðastliðinn sólarhring.

Fleiri lönd í Suður-Evrópu ætla að opna landamæri sín fyrir sólþyrstu ferðafólki í næsta mánuði. Paola De Micheli, samgönguráðherra Ítalíu, tilkynnti í dag að heimilað hefði verið að opna alla flugvelli landsins fyrir innanlands- og millilandaflugi frá og með þriðja júní.

Spánverjar hafa enn ekki tilkynnt hvenær landamæri þeirra verði opnuð. Í dag var þó slakað á varúðarráðstöfunum í Barcelona þegar strendur og almenningsgarðar voru opnaðir að nýju. Í tilkynningu frá lögreglu borgarinnar er fólk beðið að sýna ábyrgð. Hópíþróttir eru bannaðar enn sem komið er, svo og sundferðir ... og sólböð. Fjölmargir virtu hið síðasta að vettugi, að sögn spænskra fjölmiðla.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV